sun 30. september 2018 14:02
Ívan Guðjón Baldursson
Ronaldo vísar ásökunum um nauðgun á bug
Mynd: Getty Images
Þýski miðillinn Der Spiegel birti grein á dögunum um meinta nauðgun sem á að hafa átt sér stað í Las Vegas 12. júní 2009.

Þar er sagt að kona að nafni Kathryn Mayorga hafi lagt fram kæru á hendur Cristiano Ronaldo fyrir nauðgun en málið hafi verið leyst utan dómsals.

Ronaldo birti myndband á Instagram vegna greinar Der Spiegel og ásakaði þýska miðilinn um rógburð. Hann bætti því við að lögfræðingar hans hafi ákveðið að kæra miðilinn fyrir brot á persónuverndarlögum.

„Þeir vilja koma sér á framfæri með því að nota mitt nafn, það er eðlilegt," sagði Ronaldo meðal annars á Instagram.

Sagan segir að Ronaldo hafi framið verknaðinn á hótelherbergi í Las Vegas og að Kathryn hafi leitað til lögreglunnar skömmu síðar. Ronaldo á að hafa greitt tæplega 300 þúsund pund til þess að Kathryn myndi aldrei opinbera þessar ásakanir sínar.

Lögfræðingar Kathryn eru sagðir vera að leita leiða til að ógilda samkomulagið sem náðist við lögfræðinga Ronaldo þegar málið átti sér stað. Takist það getur Kathryn stigið opinberlega fram og sagt sína sögu.

„Fréttin frá Spiegel er kolólögleg. Við munum kæra fyrir afar gróft brot á persónuverndarlögum," sagði Christian Schertz, einn lögfræðinga Ronaldo.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner