,,Já já það er hægt að vera sáttur við þetta," sagði Jóhann Torfason aðstoðarþjálfari Bí/Bolungarvíkur eftir 1-1 jafntefli gegn Víkingi Ólafsvík í toppslag 2. deildar í Ólafsvík í dag aðspurður hvort hann væri sáttur við úrslitin.
,,Markmiðið var að tapa ekki í dag, við gengum í þennan leik fyrst og fremst með það markmið að sigra og við náðum því ekki en jafntefli erum við sáttir við."
,,Úrslitin eru allt í lagi en sigurinn er það sem allir sækjast eftir. Hjá mér er það bara sigur og ekkert annað en sigur, en jafntefli verður maður að sætta sig við. Leikurinn bauð upp á gott jafntefli."
,,Í heild sinni er ég ekki alveg sáttur, mér fannst þeir gefa sér of mikinn tíma í að reyna að elta þá, við vorum frekar á eftir í fyrri hálfleik, svo fórum við með smá breytingar og fórum að taka fyrr á þeim og þá fór það að koma hjá okkur og við náðum að spila okkar bolta."
Lið BÍ/Bolungarvíkur er í 2. sæti deildarinnar nú þegar mótið er hálfnað en það gefur sæti í 1. deild á næstu leiktíð haldi liðið því sæti. Jóhann var spurður út í þá stöðu.
,,Það er ekkert annað en að sigra, það er ekkert annað í stöðunni með lið eins og við erum með. Við erum með 18-20 flinka og góða stráka, mjög jafnt og gott lið, menn koma í stöðu hvors annars svo það er ekkert vandamál. Nú er bara að keyra á og ekkert annað en toppurinn sem gildir. Við sækjumst ekki eftir öðru eða þriðja. Það er ekkert verið að sækjast eftir því."























