,,Þessir asnar.... ég næ þeim," sagði Theódór Sveinjónsson þjálfari kvennaliðs Þróttar eftir að liðið tryggði sér sæti í Pepsi-deild kvenna í kvöld en leikmenn liðsins helltu yfir hann vatni í miðju viðtali. Liðið hafði unnið Selfoss 3-1 og samanlagt 4-2.
,,Þetta eru yndislegar stelpur og þær eiga þetta svo skilið. Þær eru búnar að leggja mikið á sig í vetur og búnar að standa sig rosalega vel."
Fjölmenni mætti í stúkuna á Þróttarvelli og hvatti liðin áfram, mun fleiri áhorfendur en hafa verið að mæta á leiki karlaliðs Þróttar.
,,Jájá, við erum með meðbyr með okkur líka. Það er alltaf meiri stuðningur þegar það gengur vel og það hefur aðeins hikstað hjá strákunum. Þeir þurfa að byggja upp í rólegheitunum og þá kemur þetta."
Þegar Þróttur vann sigur í Lengjubikarnum í vor töluðu leikmenn liðsins um að þær ætluðu upp líka og þá myndu þær vinna klefann af karlaliðinu.
,,Þetta er mjög góð spurning og búið að vera mjög viðkvæmt efni hjá mörgum. Ég reikna með að við eftirlátum klefann, það kemur í ljós hvað gerist í þeim málum. Málið er að stelpurnar eru í Pepsi-deild, efstu deild, og strákarnir í 1. deild. Það kemur í ljós hvað gerist."
Nánar er rætt við hann í sjónvarpinu að ofan.






















