Fylkir haldið hreinu tvisvar í röð
„Þetta var flottur leikur hjá okkur í dag," sagði kátur Helgi Sigurðsson eftir langþráðan sigur Fylkis í Pepsi-deild karla. Fylkir kreisti fram 1-0 sigur gegn ÍBV í Vestmannaeyjum á Þjóðhátíðarhelginni.
Lestu um leikinn: ÍBV 0 - 1 Fylkir
„Vestmanneyingar herjuðu á okkur fyrstu 10 mínúturnar en eftir það fengu þeir varla neitt. Eftir að við komumst yfir vorum við líklegri til að bæta við en þeir að jafna. Þetta var sanngjarnt."
Helgi segir að það hafi verið heppni í því að fá þetta fyrsta mark.
„Á þeim tímapunkti vorum við heppnir að komast yfir í leiknum og það gaf okkur byr undir báða vængi. Við erum tilbúnir að berjast fyrir hvorn annan frá fremsta til aftasta manns. Þegar það gerist þá getum við gert góða hluti."
„Við erum í baráttu og við megum hvergi slaka á."
Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Ólafur Ingi Skúlason voru sterkir á miðjunni í dag.
„Þeir voru frábærir, vinna mikið af boltum og eru reynsluboltar sem geta talað og stýrt mönnum. Þeir hafa verið frábærir síðan þeir spiluðu saman. Við erum með frábært lið út um allt - menn gefast aldrei upp."
Þett er fyrsti sigur Fylkis síðan í byrjun júní.
„Það er ekkert óeðlilegt við það að lið sem kemur upp lendi einhvers staðar í móti þar sem koma 4-5 leikir þar sem gengur ekki allt upp. Við lögðum mikið upp úr því í vetur að vinna fótboltaleiki því við þurftum að koma með sjálfstraust inn í mótið og við gerðum það og vorum frábærir fyrstu 7-8 umferðirnar. Svo slökum við á, ekki bara leikmennirnir - við allir. Við vorum of værukærir og fengum 2 mjög slaka leiki, fengum mörk á þeim í báðum. Þá kom ekkert annað til greina en að loka markinu og reyna að byggja ofan á það, nú erum við búnir að halda hreinu í tveimur leikjum og ef þú heldur markinu hreinu þá áttu von á því að fá mikið af stigum."
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan, en leikmenn Fylkis fá að skemmta sér í Herjólfsdalnum í kvöld.
Athugasemdir
























