Það var nóg um að vera í evrópska boltanum í dag þar sem franska stórveldinu Paris Saint-Germain mistókst að endurheimta toppsæti efstu deildar í heimalandinu.
PSG heimsótti OGC Nice og var einu marki undir í leikhlé, eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik þar sem varnarmaðurinn Ali Abdi skoraði eina markið.
Bakvörðurinn sókndjarfi Nuno Mendes jafnaði fyrir PSG í upphafi síðari hálfleiks en hvorugu liði tókst að bæta mörkum við leikinn.
PSG sýndi yfirburði en skapaði ekki mikið af hættulegum færum og urðu lokatölur 1-1.
PSG er með 17 stig eftir 7 umferðir, tveimur stigum á eftir AS Mónakó.
Lyon vann þá annan deildarleikinn sinn í röð, þar sem argentínski bakvörðurinn Nicolas Tagliafico skoraði fyrra mark leiksins eftir stoðsendingu frá Saïd Benrahma. Lyon hefur verið að ganga í gegnum afar erfiða tíma en liðið er komið með 10 stig úr 7 umferðum á nýrri leiktíð.
Í tyrkneska boltanum vann Galatasaray 1-0 sigur gegn Alanyaspor til að auka forystu sína á toppi efstu deildar. Þar er stórveldið sögufræga komið með 22 stig eftir 8 umferðir.
Yunus Akgün skoraði eina mark leiksins en Dries Mertens, Mauro Icardi og Lucas Torreira voru meðal byrjunarliðsmanna. Michy Batshuayi var meðal þeirra sem komu inn af varamannabekknum.
Besiktas missteig sig í dag og er því aðeins með 17 stig eftir að hafa gert jafntefli við Gaziantep. Ítalska markavélin Ciro Immobile skoraði úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik en Gaziantep jafnaði á 95. mínútu. Rafa Silva, Gedson Fernandes og Joao Mario voru meðal byrjunarliðsmanna í sterku liði Besiktas.
Nice 1 - 1 PSG
1-0 Ali Abdi ('39)
1-1 Nuno Mendes ('52)
Lyon 2 - 0 Nantes
1-0 Nicolas Tagliafico ('22)
2-0 N. Pallois ('54, sjálfsmark)
Galatasaray 1 - 0 Alanyaspor
1-0 Yunus Akgun ('28)
Gaziantep 1 - 1 Besiktas
0-1 Ciro Immobile ('31, víti)
1-1 A. Maxim ('95)
Athugasemdir