Klopp hefur áhuga á Malen - Hvert fer Osimhen? - Juventus leitar að manni í stað Pogba - Man Utd og Chelsea berjast um brasilískan miðjumann
banner
   lau 10. júní 2023 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Willum var markahæstur - „Einstök upplifun"
Willum Þór Willumsson.
Willum Þór Willumsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Willum leikur með Go Ahead Eagles í Hollandi.
Willum leikur með Go Ahead Eagles í Hollandi.
Mynd: Go Ahead Eagles
Markinu fagnað gegn Ajax.
Markinu fagnað gegn Ajax.
Mynd: EPA
Willum Þór Willumsson er kominn í A-landsliðið eftir að hafa leikið feiknavel með Go Ahead Eagles í Hollandi.

Það hefur nokkuð verið kallað eftir því síðustu mánuði að Willum verði kallaður upp í landsliðið og núna er það orðin raunin.

Hann er í hópnum sem tekst á við Slóvakíu og Portúgal í undankeppni Evrópumótsins síðar í þessum mánuði.

Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, var spurður út í hinn 24 ára gamla Willum á fréttamannafundi á dögunum. Willum er miðjumaður sem hefur verið að leika nokkuð stórt hlutverk með Go Ahead Eagles í hollensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

„Ég sá hann spila gegn Ajax sem er líklega einn erfiðasti leikur sem þú getur spilað í Hollandi. Hann lagði gríðarlega mikið á sig, hljóp mikið og er mjög góður á boltann. Hann er sterkur og er hávaxinn, ég kann vel við það. Hann er mjög góður á boltanum... Það eru nokkrir leikmenn sem geta þróast í mjög góða landsliðsmenn og ég tel að hann geti orðið einn af þeim," sagði Hareide.

Mjög skemmtilegt tímabil
Willum var til viðtals fyrir æfingu í gær og ræddi hann við Fótbolta.net um tímabilið í Hollandi. Hann endaði sem markahæsti leikmaður Go Ahead Eagles í hollensku úrvalsdeildinni með átta mörk en hann var mest að spila sem einn af tveimur fremstu mönnum í 4-4-2 kerfi.

„Tímabilið var mjög gott og ég var mjög ánægður, þetta var ótrúlega gaman. Ég spilaði mjög vel og þetta var mjög skemmtilegt tímabil," segir Willum.

Hann var að klára sitt fyrsta tímabil í Hollandi eftir að hafa leikið í nokkur ár með BATE, sterkasta liði Hvíta-Rússlands.

„Þetta er sterkari deild en í Hvíta-Rússlandi var það líka erfið deild. Mér finnst Holland henta mér mjög vel og það er gaman að spila þarna. Ég held að þetta hafi verið gott skref fyrir mig á þessum tíma, að skipta yfir."

„Ég bý núna í minni borg. Það er smá breyting en lífið í Minsk var mjög gott. Ég var ekkert að kvarta yfir lífinu þar, en þetta er smá breyting."

Skoraði gegn Ajax
Líkt og áður kemur fram þá sá Hareide leik Go Ahead Eagles gegn Ajax, en Willum skoraði í fyrri leik liðanna í Amsterdam. Ajax er stærsta félagið í Hollandi.

„Við spiluðum tvisvar við þá og gerðum í bæði skipti jafntefli. Að skora í Amsterdam á Cruyff Arena er einstök upplifun. Það var mjög gaman. Á heimavelli endaði 0-0 og við spiluðum mjög vel í þeim leik. Það er alltaf gaman að spila við svona stór lið," sagði Willum en hér fyrir neðan má sjá markið sem hann skoraði á Cruyff Arena.

Sjá einnig:
Hreifst mjög af Willum eftir að hafa séð hann spila gegn Ajax


Willum mættur í landsliðið: Fannst vera kominn tími til
Athugasemdir
banner
banner