„Tilfinningin er bara geggjuð. Mér líður vel í Kópavoginum. Þetta er rétt skref fyrir mig og ég er mjög ánægð," sagði Kristín Dís Árnadóttir, leikmaður Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net í dag.
Kristín Dís lék sinn fyrsta leik fyrir Breiðablik síðan 2021 er liðið vann 4-2 sigur gegn Þór/KA í dag. „Ég held að þetta hafi verið mjög skemmtilegur leikur fyrir stúkuna. Ég er mjög sátt."
Kristín Dís lék sinn fyrsta leik fyrir Breiðablik síðan 2021 er liðið vann 4-2 sigur gegn Þór/KA í dag. „Ég held að þetta hafi verið mjög skemmtilegur leikur fyrir stúkuna. Ég er mjög sátt."
Lestu um leikinn: Breiðablik 4 - 2 Þór/KA
Kristín er 24 ára gömul og spilar sem miðvörður. Hún er uppalin í Breiðabliki en hefur síðustu ár leikið í Danmörku með Bröndby. Hún ákvað núna að koma heim og skrifaði undir samning út tímabilið.
„Ég var aðeins að bíða í glugganum. Þetta endaði í smá veseni með Bröndby og ég ákvað að stíga út úr því. Ég er mjög sátt við þá ákvörðun. Svo kom þetta upp og það eru spennandi hlutir að gerast hér. Við erum að fara í bikarúrslitaleik, getum unnið deildina og erum að fara í Meistaradeildina. Þetta er gott skref fyrir mig."
Hvernig vesen hjá Bröndby?
„Bara við náðum ekki samkomulagi um samning," segir Kristín Dís.
„Það var ekkert sem mér fannst spennandi eða rétt fyrir mig (sem kom upp erlendis). Ég vil spila og fá sjálfstraust. Það er stórt ár framundan og ég er mjög spennt."
Hún segist ætla að taka stöðuna bara eftir tímabilið en það eru möguleikar á því að gera góða hluti í Kópavoginum.
„Ég ætla ekki að koma hingað til að vinna ekki titla. Við stefnum á tvennuna," sagði Kristín að lokum en allt viðtalið er í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir