Jón Sveinsson, þjálfari Fram, segir að það vantaði upp á að liðið nýtti sín færi í 4-1 tapinu gegn Víkingum í Bestu deild karla í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 4 - 1 Fram
Framarar voru orkumiklir gegn Íslandsmeisturunum og fengu ágætis færi í byrjun leiks en nýttu ekki. Víkingar skoruðu síðan þrjú mörk á fimmtán mínútum og leiddu í hálfleik 3-0.
Gestirnir reyndu að koma sér inn í leikinn og náði Hlynur Atli Magnússon að minnka muninn en sjálfsmark frá Delphin Tshiembe kýldi þá niður og lokatölur því 4-1.
„Já, hárrétt. Við spiluðum fínan fótbolta en Víkingarnir voru erfiðir í dag. Mér fannst við byrja leikinn ágætlega og jafnræði í leiknum og við fengum fyrstu góðu færin í leiknum en fáum á okkur ódýr tvö mörk fljótlega og eftir það var þetta pínu erfitt. Víkingarnir eru erfiðir við að eiga og um leið og þeir komust yfir fundu þeir blóðið aðeins og gengu á lagið."
„Nýttu sitt vel. Það eru gæði í þessu liði og mátt ekki gefa þeim mikið því þá er hætta á þú fáir á þig mark. Því miður þá fengu þeir þessi færi og þeir nýttu þau vel og við vorum 3-0 undir í hálfleik," sagði Jón.
Það vantaði upp á herslumuninn á síðasta þriðjung vallarins en Jón segir að hann og þjálfarateymið hefðu kannski getað sett leikinn betur upp.
„Kannski vantaði meiri hreyfingu án bolta en á móti kemur að Víkingarnir voru þéttir til baka og það var ekki mikið svæði til að spila boltanum í. Mér fannst við vera taktískt ekki jafn vel undirbúnir og Víkingarnir. Ég þarf að taka þetta pínu á mig og okkur í þjálfarateyminu. Mér fannst við hefðum mátt undirbúa leikinn betur en við gerðum. Það eru tækifæri á móti Víking en við náðum ekki að nýta það nógu vel," sagði Jón en viðtalið má sjá hér fyrir ofan.
Athugasemdir