„Gott að vera komnir áfram, það eru fyrstu viðbrögðin," sagði Sveinn Elías Jónsson, fyrirliði Þórsara, eftir 6-7 útisigur á Völsungum í Mjólkurbikarnum í kvöld. Leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem Þórsarar skoruðu úr öllum sínum spyrnum og tók Svenni lokaspyrnuna.
Lestu um leikinn: Völsungur 6 - 7 Þór
„Mér fannst við ekki nógu beittir og byrjuðum ekki jafn skarpt og við hefðum viljað gera svo fannst mér dómarinn vera full fljótur að fara ofan í vasann."
Þrjú rauð spjöld fóru á loft í kvöld og 14 gul. Svenna fannst hart að Alvaro Montejo hafi verið rekinn af velli með seinna gula spjaldið fyrir leikaraskap.
„Mér finnst hart að henda Alvaro út af þegar þeir traðka á honum, þó að það sé lítið, ef hann ætlar ekki að dæma þá finnst mér ekki þurfa að rífa spjaldið beint upp. Frammistaðan varð ekkert síðri eftir að við urðum færri."
„Eru ekki dómararnir bara eins og við? Þeir eru ekkert búnir að taka leiki undanfarið, búnir að geyma spjaldið of lengi í vasanum. Ég held að hann hafi verið æstur og fundist það gaman."
Svenni kom inn á í seinni hálfleiknum og um miðbik hans átti hann í samskiptum við eldri stuðningsmenn Völsungs sem kölluðu inn á völlinn til Svenna. Hvað fór þeirra á milli?
„Ég man ekki hvað ég sagði við hann, ég held þeir hafi bara verið að gera grín að mér, að ég væri orðinn alltof gamall og ætti að fara hætta þessu. Ég sagði þeim að ég væri löngu búinn að segja þjálfurunum það að ég væri orðinn alltof gamall og búinn. Þeir áttu nú ekki svar við því en annars var þetta bara á góðu nótunum. Ég hef bara gaman af því þegar menn hafa smá passion í þessu."
Fréttaritari heyrði aðeins af þessum samskiptum og heyrði að Svenni kallaði einnig til stuðningsmannanna að hann myndi setja 'winnerinn á eftir'.
„Já, það var ekki að ástæðulausu að ég fékk að taka fimmta vítið í dag. Ég var búinn að segja þeim að þó að ég væri löngu búinn þá myndi ég alltaf klára þennan leik, sama hvernig það væri gert og ég stóð við það."
Athugasemdir






















