Keflavík er enn án stiga í Bestu deild kvenna eftir tap í Boganum á Akureyri gegn Þór/KA í kvöld. Fótbolti.net ræddi við Jonathan Glenn, þjálfara Keflavíkur, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Þór/KA 4 - 0 Keflavík
„Þetta var nokkuð jafnt í fyrri hálfleik. Fyrstu fimm mínúturnar í seinni hálfleik voru nokkuð góðar en svo fáum við á okkur annað markið og það drap okkur. Við vorum lélegar eftir það og það var erfitt að komast inn í leikinn," sagði Glenn.
Glenn var ánægður með spilameennsku liðsins en annað mark Þór/KA gerði útslagið.
„Þór/KA á hrós skilið, þær komu góðar inn í leikinn, það er ástæða fyrir því að þær séu svona ofarlega í töflunni. Mér fannst stelpurnar tilbúnar og spenntar fyrir leikinn en annað markið hreinlega drap okkur," sagði Glenn.
Eins og fyrr segir er Keflavík án stiga eftir fimm umferðir en Glenn er bjartsýnn að stigin fari að tikka inn.
„Þegar það rignir þá hellirignir, þegar hlutirnir ganga vel þá gengur allt upp, þegar það gegnur illa þá er erfitt að finna heppnina. Við verðum bara að halda í trúna og vinna hart að okkur," sagði Glenn.