„Þetta er gríðarlega svekkjandi, mjög svekkjandi að tapa á heimavelli. Það er bara alls ekki það sem við viljum," sagði Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður Íslands, eftir 2-4 tap gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli.
Lestu um leikinn: Ísland 2 - 4 Tyrkland
Hákon gerði mistök í þriðja marki Tyrkja undir lok leiksins. Hann var svekktur með sjálfan sig.
„Gæinn pressar mig bara. Ég á bara að vera skynsamari, þá að hreinsa í burtu eða liggja eftir. Ég held að þetta sé klárt brot eftir að hafa séð þetta aftur. Í augnablikinu þurfti ég að reyna að verja en þetta var bara ekki nógu gott."
Það hefði alveg verið hægt að flauta brot á þetta atvik.
„Ég þurfti að standa hratt upp og reyna að verja seinna skotið. Það voru kannski stóru mistökin. Ef ég hefði legið eftir, þá hefði hann kannski dæmt á þetta. Við fengum reyndar ekkert í gegnum VAR en kannski hefðum við getað fengið það þarna. Ég hefði átt að mótmæla meira og ég læri af því. Ég sá eftir því að hafa ekki mótmælt."
„Við hittumst aftur í nóvember og þurfum að gera betur þá," segir Hákon en hann telur að það muni ganga fínt að losna við þennan leik úr kerfinu.
Athugasemdir