„Aðdragandinn var langur, KR vildi fá mig í sumar en ég ákvað að klára tímabili með Fjölni. Þetta kláraðist svo fyrir einni og hálfri viku. Óskar hafði sýnt mikinn áhuga og mér fannst þetta mjög spennandi," sagði Júlíus Mar Júlíusson, nýr leikmaður KR, við Fótbolta.net .
Miðvörðurinn Júlíus var í byrjun mánaðarins keyptur til KR frá uppeldisfélaginu Fjölni.
Miðvörðurinn Júlíus var í byrjun mánaðarins keyptur til KR frá uppeldisfélaginu Fjölni.
ÍA, Valur og Víkingur höfðu einnig áhuga á Júlíusi. Hann var spurður hvað hefði heillað hann við KR.
„Það virðist vera eitthvað nýtt í gangi, uppbygging, sem ég held að verði mjög gaman að verða partur af, vera stór hluti og gera mitt allra besta til að koma KR á þann stað sem það á að vera - á toppnum."
Fjallað var um það í sumar að Óskar Hrafn Þorvaldsson, yfirmaður fótboltamála og þjálfari liðsins, hefði áhuga á að fá Júlíus í sínar raðir.
„Hann er ofboðslega flottur þjálfari, hefur selt marga leikmenn út og það var mjög heillandi að fara til hans."
Fyrsta markmið Júlíusar er að vinna sér sæti í byrjunarliði KR en markmiðið til lengri tíma er að fara út í atvinnumennsku. „Klárlega, ég hugsaði hvar ég gæti bætt mig mest í fótbolta og KR er þannig staður. Ég er mjög spenntur að byrja, komast í gang og gera mitt allra besta fyrir KR."
ÍA og KR voru fyrstu félögin sem sýndu áhuga.
„ÍA er mjög flottur klúbbur og þeir höfðu mikinn áhuga. Það var mjög erfitt að segja nei við ÍA. Félagið er á mjög góðum stað, búnir að eiga mjög gott tímabil, þjálfarinn flottur og leikmennirnir líka. Innsæið sagði KR og ég valdi KR út frá því."
„Það væri gaman að spila undir ljósunum í Frostaskjólinu," sagði Júlíus þegar hann var spurður út í áform KR að fara á gervigras og hvort það spili inn í hans ákvörðun.
Mjög erfitt að fara frá Fjölni
Hann segir erfitt að fara frá Fjölni. „Það er mjög erfitt, maður er búinn að vera þarna í 15 ár og mér er mjög annt um klúbbinn. Það var kannski kominn tími á eitthvað nýtt hjá mér, maður verður líka að hugsa um sjálfan sig. Ég elska Fjölni og mun klárlega spila þar í framtíðinni."
„Planið var að fara upp með Fjölni og taka tímabil með þeim í Bestu deildinni, en að hafa ekki komist upp var svolítið högg."
„Ég veit ekki hvort ég hefði farið (ef Fjölnir hefði farið upp), ég hefði þurft að skoða það betur. Það hefði verið svona 50:50. Maður þarf að þróa sinn leik, komast í nýtt umhverfi til að bæta sig."
Skemmtilegast að vinna 1-0
Júlíus er tvítugur og var að spila sitt þriðja tímabil í stóru hlutverki hjá Fjölni. „Það hefur verið mjög gott að fá traustið. Geggjaður hópur, geggjaðir gæjar í liðinu sem tóku vel á móti manni. Það hefur ógeðslega gaman að vera í Fjölni, Úlli (þjálfari) flottur og allt geggjað."
Halldór Snær Georgsson er sömuleiðis kominn í KR frá Fjölni. „Það hjálpar að fá Dóra með, þá er maður alltaf með sinn mann með sér. Það er geggjað að spila með honum."
„Það var ógeðslega skemmtilegt að spila með honum og Baldvini. Við vorum að vinna þessa leiki 1-0 og það voru skemmtilegustu leikirnir, t.d. gegn Leikni úti, vorum að blokka allt, skalla allt í burtu og fagna öllu. Það var góð tenging á milli okkar."
Snýst um að tala sínu máli á vellinum
Það hefur verið mikil umfjöllun um Júlíus árið 2024, fjallað um áhuga annarra félaga og verðmiðann á honum. Hvernig er að lesa þetta allt?
„Það er bara gaman, en fyrst og fremst þarf maður bara að standa sig á vellinum og tala sínu máli þar, sýna hvað maður getur," sagði Júlíus.
Viðtalið má nálgast í spilaranum efst.
Athugasemdir