Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   þri 15. mars 2022 12:53
Elvar Geir Magnússon
Chelsea má ekki fljúga og þarf að eyða tíu klukkutímum í rútu
Thomas Tuchel, stjóri Chelsea.
Thomas Tuchel, stjóri Chelsea.
Mynd: EPA
Vegna þeirra takmarkana sem Chelsea þarf að starfa eftir getur liðið ekki flogið í leik gegn Middlesbrough í 8-liða úrslitum FA-bikarsins um næstu helgi. Í staðinn þarf leikmannahópurinn að fara í rútuferð sem tekur samtals tíu klukkustundir fram og til baka.

Chelsea má aðeins eyða lágmarksupphæðum í ferðakostnað eftir að eigandinn Roman Abramovich fékk refsingu frá breskum stjórnvöldum vegna tengsla hans við Vladimír Pútín.

Liðið fer til Frakklands og heimsækir Lille í Meistaradeildinni annað kvöld. Búið var að ganga frá ferðaráðstöfunum fyrir þann leik áður en refsiaðgerðirnar tóku gildi. Reglurnar hamla því ekki ferðalaginu í þann leik.

Útileikurinn gegn Middlesbrough á laugardag verður fyrsti leikurinn þar sem refsingin hefur áhrif á ferðalag. Félagið þarf að vinna með 20 þúsund punda takmörk í ferðalög og það nægir ekki til að leigja flugvél.

Havertz til í að borga sinn ferðakostnað úr eigin vasa
„Það verður erfitt að skipuleggja ferðalagið í bikarleikinn eins og best verður á kosið en við þurfum að sætta okkur við það. Þetta snýst ekkert um lúxus og blíng. Þetta er atvinnumennska í íþróttum þar sem stutt er á milli leikja og við reynum að takmarka meiðslahættu. Þess vegna er betra að ferðast með flugvél en rútu," segir Thomas Tuchel, stjóri Chelsea.

Kai Havertz, leikmaður Chelsea, hefur sagt að hann sé meira en klár í að borga ferðakostnað úr eigin vasa ef það hjálpar til við að leikir geti farið fram.

„Ég myndi borga, ekkert vandamál. Það er ekki stórt mál fyrir okkur. Að komast í leikinn er mikilvægara. Það eru erfiðari hlutir í gangi í heiminum en að hafa áhyggjur af því hvort maður taki flugvél eða rútu á útileiki," segir Havertz.

Biðja um að leikurinn verði án áhorfenda
Chelsea fékk ekki leyfi til að selja miða til sinna stuðningsmanna fyrir bikarleikinn. Félagið vonast til þess að ríkisstjórnin muni gefa sér leyfi til að selja miða á komandi leiki ef hægt er að sýna fram á að ágóðinn endi ekki í vasa Abramovich.

Ljóst er að ef það leyfi mun fást þá er það orðið of seint fyrir bikarleikinn þar sem frestur er runninn út. Chelsea hefur því beðið enska fótboltasambandið um að sá leikur verði leikinn bak við luktar dyr, án áhorfenda.

„Við erum að biðja stjórn fótboltasambandsins um að leikið verði án áhorfenda til að stuðla að heilindum og jafnrétti í íþróttum. Chelsea gerir sér grein fyrir því að sú niðurstaða myndi hafa mikil áhrif á Middlesbrough og stuðningsmenn liðsins og einnig á okkar stuðningsmenn sem náðu sér í miða áður en lokað var fyrir möguleika á sölu. Við teljum hinsvegar að það sé sanngjarnast í ljósi aðstæðna," segir í tilkynningu Chelsea.
Athugasemdir
banner
banner