Miðjumaðurinn ungi Ágúst Hlynsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Víking í kvöld en það dugði skammt því liðið tapaði 3-4 fyrir Stjörnunni. Víkingar sýndu karakter eftir að hafa lent þremur mörkum undir en fara tómhentir úr leiknum.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 4 Stjarnan
„Tilfinningin er glötuð. Mér fannst við geta fengið meira út úr þessum leik. Við vorum flottir sóknarlega en kannski klaufalegir í varnarleiknum," sagði Ágúst.
„Við höfum verið að spila fínt en þetta hefur ekki alveg verið að detta hjá okkur. Þetta hlýtur að fara að detta í næstu leikjum."
„Við erum með tvö stig og það eru vonbrigði en mér finnst við geta tekið fullt af jákvæðum hlutum út úr þessu. Það þýðir ekki að horfa eitthvað til baka, við verðum að horfa fram á við."
Víkingar hafa verið að mæta liðum sem spáð var efstu sætum deildarinnar en næsti leikur er gegn ÍBV í Eyjum.
„Það er ekkert annað í boði en að taka þrjú stig þar," segir Ágúst en viðtalið má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir