Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
banner
   fim 19. ágúst 2021 16:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hugur Örnu leitar aftur út: Báðir aðilar eru opnir fyrir því
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þór/KA, lék með Glasgow City á láni fyrri hluta þessa árs. Hún hefur gefið til kynna að hún væri opin fyrir því að fara aftur út eftir tímabilið.

Sjá einnig:
Er sterkari andlega og í betra formi - Fór út með vont hugarfar og var hrædd
„Þau gera rosalega mikið úr því að ég kunni að skalla"

Fótbolti.net ræddi við Örnu Sif í gær og spurði hana út í möguleikann á atvinnumennsku í haust.

Hugurinn leitar út
„Mér finnst það líklegast af öllu, að ég fari aftur erlendis í haust," sagði Arna.

„Ég er að renna út á samningi hjá Þór/KA og hugurinn leitar út. Ég hef rætt við þau úti í Glasgow og báðir aðilar eru opnir fyrir því að ég fari út aftur. Það þarf bara í ljós hvernig það verður, tímabilið þeirra er að byrja og glugginn þar er að lokast í lok ágúst. Þá verða ennþá tveir leikir eftir með Þór/KA."

„Þetta verður að koma í ljós hvort ég fari út í ágúst eða eftir tímabil."


Glasgow reynt að fá Örnu út fyrir gluggalok
Hafa verið viðræður við Þór/KA að þú farir út áður en glugginn lokar?

„Já, þau eru alveg eitthvað búin að reyna en ég er leikmaður Þórs/KA núna og við erum í þeirri stöðu sem við erum í, ekki með öruggt sæti í deildinni og hefur verið pínu hark lengst af í sumar. Eðlilega hefur það ekki verið í boði og var ekki að fara ganga upp. Mér finnst það ekki líklegt að það verði úr þessu."

„Markmiðið mitt er að klára þetta tímabil með Þór/KA og skilja við þær eins ofarlega og ég get. Mér finnst líklegra að það verði ekki fyrr en eftir tímabilið."


Það eru því ekki miklar líkur á því að þú verðir á Íslandi á næsta tímabili?

„Nei, mér finnst það ekki. Það er samt ekkert komið á hreint og á eftir að koma í ljós. Eins og staðan er núna þá leitar hugurinn frekar út."

Ekki með sæti í landsliðinu sem markmið
Arna á að baki tólf A-landsleiki, sá síðasti kom árið 2017. Ertu með hugann eitthvað við landsliðið?

„Nei, í rauninni ekki. Ég hef reynt svona síðustu tvö ár að hafa það ekki sem markmið. Ég hef ekki verið að stefna beint á það því í gegnum tíðina hefur það dálítið tekið yfir. Þá verður maður mikið fyrir vonbrigðum ef maður er ekki valinn og látið það pínu rugla mann í kollinum."

„Auðvitað ef kallið kemur þá er ég alltaf klár og það vilja allir spila fyrir landsliðið, það segir sig alveg sjálft. Ég er ekki með það sem markmið í dag en kannski breytist það,"
sagði Arna að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner