„Þetta var frekar þungt og erfitt," sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, eftir 5-0 tap gegn ÍA í næst síðustu umferð Pepsi Max-deildarinnar.
Lestu um leikinn: ÍA 5 - 0 Fylkir
Fylkir verður á botni deildarinnar fyrir lokaumferðina en á enn möguleika á því að bjarga sér. Það er ekki útilokað. Þeir verða að treysta á að HK nái ekki í sigur gegn Stjörnunni á morgun. Ef það gerist, þá eru Fylkismenn fallnir.
„Við verðum að vonast til þess að aðrir leikir verði hagstæðir fyrir okkur, svo við eigum einhvern möguleika gegn Val."
HK, sem er í fallbaráttu, á leik á morgun gegn Stjörnunni. Allir aðrir leikir umferðarinnar eru í dag. „Mér finnst að allir þessir leikir ættu að fara fram á sama tíma. En KSÍ fannst það ekki. Þannig er það bara."
Fylkir missti mann af velli snemma leiks. „Það var þungt fyrir okkur. Við þurftum aðeins að riðla stöðu manna, og ákváðum að fara í þriggja manna vörn. Það gekk ágætlega, við vorum að spila ágætlega einum færri í fyrri hálfleik. Leikurinn hefði kannski breyst ef við hefðum náð að setja mark á þá, en þeir fá skyndisóknir og kaffæra okkur í 2-0. Svo er 3-0 skyndilega og þá var þetta orðið helvíti erfitt."
„Við gefumst ekki upp. Það ræðst á morgun hvort við eigum áfram séns. Vonandi fer þetta allt á besta veg hjá okkur."
Athugasemdir