
Harpa Þorsteinsdóttir skoraði fernu í stórsigri Stjörnunnar gegn Fylki í undanúrslitaleik Mjólkurbikarsins.
Harpa var kát að leikslokum og telur mörkin gera góða hluti fyrir sjálfstraustið.
„Við vorum mikið meira með boltann og mjög gott fyrir sjálfstraustið að sjá nokkur mörk í netinu," sagði Harpa við fréttamann Fótbolta.net.
Leikurinn fór af stað í smá jafnvægi og komst Fylkir yfir snemma leiks. Eftir markið skipti Stjarnan um gír og setti níu mörk.
„Mér fannst við ekki byrja leikinn á sama tempói og þær. Þær ætluðu greinilega bara að sækja sigurinn. Við tókum okkur saman í andlitinu við markið og fórum að vinna skítavinnuna sem skilaði svo sigrinum."
Stjarnan fer því í úrslitaleik Mjólkurbikarsins annað árið í röð, en í fyrra töpuðu Garðbæingar fyrir ÍBV í úrslitaleiknum.
„Ég er mjög ánægð að við séum að komast aftur á Laugardalsvöll þar sem við eigum harma að hefna síðan í fyrra. Við erum mjög spenntar sama hvaða liði við mætum."
Athugasemdir