Trent búinn að semja við Real um kaup og kjör - Man Utd ætlar að losa sig við Rashford og Casemiro - United skoðar ungan Tyrkja
   sun 23. mars 2025 18:58
Ívan Guðjón Baldursson
Þjóðadeildin: Ísland steinlá gegn Kósovó
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland 1 - 3 Kósovó (2-5 samanlagt)
1-0 Orri Steinn Óskarsson ('2)
1-1 Vedat Muriqi ('35)
1-2 Vedat Muriqi ('45+1)
1-3 Vedat Muriqi ('79)
Rautt spjald: Aron Einar Gunnarsson ('69)

Lestu um leikinn: Ísland 1 -  3 Kósovó

Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu eru dottnir niður í C-deild Þjóðadeildarinnar eftir annað tap gegn Kósovó.

Ísland byrjaði á að tapa útileiknum í Kósovó 2-1 en hóf seinni leikinn í Murcia af krafti og skoraði Orri Steinn Óskarsson með góðu skoti eftir hornspyrnu strax á 2. mínútu leiksins.

Lið Kósovó vann sig inn í leikinn og reyndist svo sterkari aðilinn. Leikmenn Kósovó komust nálægt því að jafna metin áður en Vedat Muriqi tók til sinna ráða og skoraði af stuttu færi eftir slakan varnarleik íslenska liðsins. Muriqi var réttur maður á réttum stað þegar sending breytti um stefnu og endaði hjá honum.

Strákarnir okkar héldu boltanum vel innan liðsins en áttu í miklum erfiðleikum með að skapa sér færi á meðan andstæðingarnir í liði Kósovó sköpuðu meiri hættu með sínum sóknum.

Muriqi var aftur á ferðinni undir lok fyrri hálfleiks þegar hann skoraði í uppbótartímanum eftir snögga skyndisókn upp völlinn. Varnarleikur Íslands var arfaslakur og tók Kósovó aðeins nokkrar sendingar að þræða sig í gegnum íslenska liðið.

Aron Einar Gunnarsson kom inn af bekknum í hálfleik og fékk Willum Þór Willumsson flott færi í byrjun síðari hálfleiks, áður en Aron Einar nældi sér í gult spjald fyrir brot á Muriqi. Arnar Gunnlaugsson þjálfari kláraði skiptingar Íslands fljótt í síðari hálfleik og fékk Aron Einar seinna gula spjaldið sitt á 69. mínútu, eftir annað brot á Muriqi.

Tíu leikmenn Íslands gátu lítið gert til að jafna leikinn. Þess í stað bættu gestirnir við forystuna sína. Muriqi fullkomnaði þrennuna sína eftir slakan varnarleik Íslendinga, þar sem boltinn datt fyrir hann á frábærum stað og eftirleikurinn auðveldur.

Meira var ekki skorað og verðskuldaður 1-3 sigur Kósovó gegn Íslandi staðreynd. Heildarniðurstaðan úr einvíginu 2-5 fyrir Kósovó sem fer upp í B-deild Þjóðadeildarinnar á meðan Ísland fer niður í C-deild.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner