,,Þetta var allt í lagi leikur hjá mér en ég hefði viljað fá sigur í þessum leik. Við fengum helling af tækifærum og þær reyndar líka. Þetta var bara jafn og spennandi og opinn leikur," sagði Birna Berg markvörður ÍBV sem hefur haldið hreinu í fyrstu fimm umferðum Pepsi-deildar kvenna eftir markalaust jafntefli við KR í kvöld.
,,Mér fannst vanta aðeins meiri grimmd fyrir framan markið. Við höfum alveg hraðan fram á við en vantar meiri grimmd í þetta."
,,Jón Óli er duglegur að halda okkur niðri á jörðinni. Leikurinn er búinn þegar flautað er af, við kannski fögnum aðeins um kvöldið en svo er þetta bara búið daginn eftir."
KR fékk vítaspyrnu í leiknum sem Birna varði frá Katrínu Ásbjörnsdóttur. En óttaðist hún ekki að fá á sig fyrsta markið í sumar þar?
,,Nei, alls ekki. Það er búið að stappa svo mikið stálinu í mig og segja að ég ver öll víti sem koma. Ég vissi líka hvar hún myndi skjóta. Svo ég fór bara í mitt horn. Hún hefur tekið á mig víti áður og skaut þarna. Ég mundi það bara. Við erum saman í U17 og U19 ára landsliiðinu, ég kann á hana."























