Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari Breiðabliks var að vonum súr með það að vera dottinn úr bikarnum eftir 0-1 tap á heimavelli gegn Val í 16-liða úrslitum Valitors-bikarsins. Hann telur hafa verið einhver rangstöðulykt af markinu og væri til í að sjá það mark aftur.
,,Ég væri til í að sjá þetta mark aftur. Þetta voru sérstakar aðstæður, við keyrum út og þær sleppa í gegn. Það var rangstöðulykt af þessu marki en maður sér það ekki almennilega frá bekknum en þetta er klaufalegt ef við erum að missa inn leikmann sem er réttstæður úr þessari stöðu," sagði Jóhannes Karl um mark Valskvenna sem kom strax á 6.mínútu leiksins þegar Kristín Ýr Bjarnadóttir slapp í gegn og skoraði laglegt mark.
,,Mér fannst fyrri hálfleikurinn allt í lagi eftir fyrsta korter til tuttugu mínúturnar, þegar Valur var með algjöra yfirburði en eftir það þá fannst mér við komast betur inn í leikinn. Sköpum okkur til að mynda dauðafæri sem maður hefði viljað sjá inni," sagði Jóhannes en þá talar hann líklega um færið sem Fanndís Friðriksdóttir fékk á 23.mínútu eftir góðan undirbúning og sendingu frá Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur.
Viðtalið við Jóhannes í heild sinni er hægt að sjá í sjónvarpinu hér að ofan.





















