Jón Páll Pálmason þjálfari kvennaliðs Fylkis var ánægður með að liðið hafi dregist gegn FH í 8-liða úrslitum Valitor bikarsins. Hann var sérlega ánægður með það að hafa fengið heimaleik.
,,Mér finnst þetta mjög gott. Aðalmálið er að vera í skálinni þegar það er dregið og það er gott að fá heimaleik og gott að fá FH, eins og öllur önnur lið reyndar,” sagði Jón Páll við Fótbolta.net.
,,Þetta er sérstakt, ég er úr Hafnarfirði og ræturnar liggja í norðurhluta Hafnarfjarðar. Ég get lofað því að það er enginn maður á Íslandi sem vill vinna FH jafn mikið og ég.”
Jón Páll segir að það komi ekki til greina að vanmeta lið FH þó að þær séu eina lið fyrstu deildarinnar sem eftir var í pottinum.
,,FH er með besta liðið í fyrstu deild og er með lið sem myndi plumma sig mjög vel í úrvalsdeildinni. Ég veit alveg að FH liðið er mjög gott og það er ekki séns að við munum vanmeta þær,” sagði hann.
Viðtalið í heild sinni má sjá í myndbandinu hér að ofan.
























