"Já ég er hundfúll. Það var lélegt að tapa þessu niður og ég er sársvekktur." sagði Andri Marteinsson um tap Víkinga í kvöld gegn Val, 2-1.
Víkingar skoruðu fyrsta markið um miðjan seinni hálfleik en skömmu seinna tóku Valsmenn öll völd á vellinum og virtust mun ákveðnari, þrátt fyrir að vera manni færri. "Svona seinasta hluta leiksins þá virkuðu þeir bara með ferskari fætur svo það virkaði eins og við værum einum færri, ekki þeir."
Milos Milojevic fór útaf meiddur um miðjan seinni hálfleik og Denis Abdulahi var þá færður í miðvörð í hans stað. Við það riðlaðist leikur Víkinga töluvert og Valsmenn gengu á lagið. "Þeir tóku bara miðjuna og í rauninni voru miklu skipulagðari í sínum sóknarleik en við vorum.
Marteinn Briem sem kom inn á sem varamaður og skoraði mark Víkinga í kvöld gerði afdrifarík mistök þegar hann færði Valsmönnum vítaspyrnu á silfurfati. "Skelfilegt að fá þetta víti á okkur. Atvikaröð tilviljana og mistaka í rauninni." sagði Andri um Martein Breim og bætti seinna við "Ef að það var óheppni með vítið þá var það óheppni með markið sem hann skoraði. Maðurinn veit betur, menn eru með hælsendingar hérna rétt fyrir utan teig. En þetta er ekki honum að kenna þetta tap, alls ekki og gott mark sem hann gerir."
Nánar er rætt við Andra Marteinsson í sjónvarpinu hér að ofan.






















