,,Það er gríðarlega gott að fá ekki á sig mark hérna heima og eitt mark úti getur gert gæfumuninn," sagði Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV ánægður eftir 1-0 sigur á Saint Patrick's í dag.
,,Þeir spiluðu háum boltum og voru að berjast svolítið í því. Við misstum á köflum boltann upp í loftið og fórum að spila eins leik og þeir. Þar eru þeir betri en um leið og við fórum að spila boltanum með jörðinni gekk þetta betur og við áttum margar flottar sóknir í dag."
,,Útileikurinn verður alltaf erfiðari en heimaleikurinn en mér finnst að við séum allavega ekki síðra lið en þetta lið, sérstaklega ef við spilum okkar leik."
Leikurinn í dag fór fram á Vodafonevellinum þar sem Hásteinsvöllur uppfyllir ekki kröfur UEFA en Heimir var ánægður með stuðninginn.
,,Það er frábært hjá Vestmannaeyingum að fjölmenna hérna í dag og fínn stuðningur, það er sjaldan sem við fáum svona mikinn stuðning. Takk fyrir allir Vestmannaeyingar og stuðningsmenn að koma og láta hera í sér."
Eyjamenn mæta Fjölni á útivelli á sunnudag og halda síðan til Írlands á þriðjudag. Heimir hefur því lítinn tíma til að sinna störfum sínum sem tannlæknir þessa dagana.
,,Það er fólk sem sér um það fyrir mig. Við erum gott teymi líka á tannlæknastofunni," sagði Heimir léttur í bragði að lokum.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.






















