Rade Prica, framherji Rosenborgar og fyrrum leikmaður Sunderland, var að vonum vonsvikinn með 2-0 tap liðsins gegn Breiðablik í undankeppni Meistaradeildarinnar í kvöld. Þeir norsku komust samt nokkuð örugglega áfram og viðurkenndi Prica að það væri það sem málið snerist um.
„Ég held að við höfum haft það hugarfar að við höfum unnið fyrsta leikinn 5-0 og haldið að þetta yrði auðveldara í dag. En við töpuðum 2-0. Við erum samt komnir áfram þannig að þetta skiptir ekki svo miklu máli,“ sagði Prica við Fótbolta.net.
Prica segir þó að sínir menn hafi ekki farið inn í þennan leik með neitt vanmat gagnvart Breiðabliki. Hann segir að liðið geti spilað miklu betur.
„Maður býst alltaf við erfiðum leik. Ég veit að það er spilaður harður bolti hérna á Íslandi þannig að ég bjóst við erfiðum leik. En við spiluðum ekki góðan leik í kvöld og Breiðablik átti skilið að vinna. Ég veit að við getum spilað miklu betur, en við getum ekki hugsað of mikið um þennan leik,“ sagði hann.
Rosenborg mætir tékknesku meisturunum í Victoria Plzen í næstu umferð og viðurkennir Prica að það verði erfið viðureign.
„Það verður mjög erfiður leikur og ólíkur viðureigninni gegn Breiðablik. Ég vona samt að við getum komist áfram,“ sagði Prica að lokum við Fótbolta.net.






















