Halldór Orri Björnsson bjargaði stigi fyrir Stjörnuna í kvöld þegar hann skoraði jöfnunarmarkið í 2-2 viðureigninni gegn Fram í Pepsi deild karla á 90. mínútu. Hann var þó alls ekki sáttur með að hafa fengið einungis eitt stig gegn botnliðinu á heimavelli.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 2 Fram
„Ég er alls ekki sáttur. Maður vill alltaf sigra á heimavelli og mér fannst við bara vilja þetta meira, svona heilt yfir. Við sóttum án afláts allan seinni hálfleikinn og náðum að pota inn einu marki þarna í lokin, það er sárabót. Það hefði náttúrulega verið ennþá verra að tapa þessum leik,“ sagði Halldór Orri við Fótbolta.net.
„Mér fannst þetta nú heilt yfir ekkert sérstaklega vel spilaður fótbolti hjá hvorugu liðinu, en bæði lið fengu fullt af færum og við hefðum bara átt að nýta fleiri færi. Við sköpuðum okkur slatta af færum sem við náðum ekki að nýta í dag, sem við hefðum kannski nýtt á erfiðum degi.“
Halldór Orri skoraði sem fyrr segir jöfnunarmarkið og var það skrautlegt í meira lagi. Hann átti þá skemmtilega rispu þar sem hann lék á hvern varnarmanninn á fætur öðru áður en hann átti þríhyrningsspil með Garðari Jóhannssyni. Halldór segist ekki alveg muna hvað gerðist en að hann hafi reynt að taka „Zidane-snúning“ á þetta.
„Ég hef ekki hugmynd, ég þarf að sjá þetta aftur. Ég man voða sjaldan eftir mörkunum mínum, ég man bara að ég var að reyna að komast framhjá varnarmönnunum og reyndi einhvern Zidane-snúning sem ég man ekki hvernig tókst. Einhvern veginn potaði ég boltanum á Garðar og fæ hann aftur og næ að leggja hann framhjá Ögmundi,“ en Garðar skoraði einnig stórglæsilegt mark fyrr í leiknum.
„Þetta var svona „once in a lifetime“ hjá Garðari held ég, en þetta var örugglega eitt af mörkum sumarsins. Hann smellhitti boltann.“