,,Mér fannst við vera miklu betri frá fyrstu mínútu og bara spurning hversu stórt þetta yrði," sagði Þórður Þórðarson þjálfari ÍA eftir 5-0 sigur á KA í 1. deildinni í kvöld en eftir leikinn lyfti ÍA bikar fyrir sigur í deildinni.
Hjörtur Júlíus Hjartarson kom inná þegar klukkutími var liðinn af leiknum og skoraði þrennu. En hvernig gat Þórður leyft sér að geyma hann á bekknum?
,,Við vorum bara að gefa ungu strákunum séns. Þeir eiga það alveg skilið. Það eru nokkrir strákar sem hafa fengið lítið að spila og ég ákvað að síðustu tvo leikina fengju þeir að spila."
,,Það er helvíti gott að geta hent Hirti inná og skora þrjú mörk. Hjörtur var eðlilega fúll að fá ekki að byrja en hann hefði aldrei skorað þessi þrjú mörk hefði hann byrjað. Það get ég alveg fullyrt."






















