,,Við fengum stig og ég er sáttur við það," sagði Þorvaldur Örlygsson þjálfari Fram við Fótbolta.net eftir 1-1 jafntefli gegn FH í kvöld.
Lestu um leikinn: FH 1 - 1 Fram
,,Við spiluðum mjög skynsamlegan leik. Við vorum oft á tíðum að halda boltanum vel og hefðum með smá ró og lagni getað komið okkur í ennþá betri færi oft á tíðum. Við vorum að spila á erfiðum útivelli á móti góðu liði."
Steve Lennon og Sam Hewson áttu báðir góðan leik með Frömurum í kvöld en liðinu hefur gengið betur síðan að þeir komu til félagsins í júlí.
,,Þeir eru góðir spilarar og hjálpa öðrum að stíga upp á annað plan. Það hjálpast allt að."
Framarar eru eftir stigið í kvöld fimm stigum frá Grindavík og sex stigum á eftir Keflavík, Breiðablik og Þór. Framarar mæta einmitt Keflvíkingum í næstu umferð á sunnudag.
,,Hvort sem við hefðum náð í 1 eða 3 stig í dag þá er hann jafnmikilvægur og næstu þrír leikir. Við munum berjast og þegar það er séns þá höldum við áfram og hvort sem það er ekki séns þá höldum við áfram."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.























