,,Leikplanið fer nokkurnveginn þegar við fáum mark á okkur í byrjun seinni hálfleiks," sagði Grétar Rafn Steinsson hægri bakvörður Bolton við Fótbolta.net eftir 3-0 tap liðsins geng Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Staðan í leikhléi var markalaus en David Luiz kom Chelsea yfir snemma í síðari hálfleik. Chelsea komst á bragðið og Didier Drogba og Frank Lampard bættu við mörkum áður en yfir lauk.
,,Við mættum einfaldlega sterku Chelsea liði í dag. Villas-Boas breytti aðeins liðinu, setti sterka og reyndari leikmenn aftur inn í liðið. Hann hefur verið að gefa leikmönnum séns sem hann telur að hann sé sterkari en þú setur ekki svona gæði á bekkinn leik eftir leik."
Andre-Villas Boas, stjóri Chelsea, gerði nokkrar breytingar frá því í 3-1 tapinu gegn Napoli í dag en Ashley Cole, Frank Lampard og Michael Essien komu meðal annars inn í liðið.
,,Ég hefði frekar viljað mæta þeim sem spiluðu í Napoli heldur en þeim sem spiluðu í dag. Chelsea er frábært lið og er með marga góða leikmenn. Þegar þeir ná forystunni þá er erfitt að ná henni af þeim að þeir eru sterkir líkamlega og mjög vel skipulagðir."
Bolton er sem stendur í næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 20 stig en Wigan, Blackburn, QPR og Wolves eru öll á svipuðum slóðum.
,,Ég held að við séum búnir að koma okkur í þessa vitleysu sjálfir. Við erum sterkari en við höfum verið að sýna. Við höfum misst leikmenn í langvarandi meiðsli sem eru hluti af okkar máttarstólpum. Við höfum misst sterka leikmenn frá okkur og þeir leikmenn sem við höfum fengið í staðinn hafa kannski ekki verið með sömu gæði og þeir sem við höfum misst. Það hefur áhrif en við erum samt sem áður með mjög sterka og góða leikmenn."
Grétar Rafn er bjartsýnn á að Bolton nái að halda sæti sínu í deildinni þrátt fyrir að staðan sé erfið í dag.
,,Ég tel að við getum bjargað okkur. Þetta eru líklega 12-13 stig sem þarf í viðbót og ég tel að við eigum heima og útileiki eftir þar sem við ættum að geta tekið þessi lið. Öll liðin í kringum okkur hafa farið á gott "run" en við höfum ekki náð því. Í næsta mánuði kemur Chung-Young Lee til baka, það á eftir að hjálpa okkur mikið og lokaspretturinn ætti að vera okkur í hag."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir























