Breiðablik tilkynnti á fréttamannafundi í gær komu tveggja erlendra leikmanna sem leika með liðinu í sumar. Þetta eru framherjinn Petar Rnkovic og miðvörðurinn Rene Troost. Fótbolti.net ræddi við Ólaf Helga Kristjánsson þjálfara Breiðabliks um leikmennina.
,,Framherjinn er með töluverða reynslu úr norsku knattspyrnunni og búinn að spila þar bæði í efstu deild og næst efstu. Hann er með fínt record í markaskorun. Hann er hávaxinn, góður skallamaður og góður uppspils senter og góður inni í teig. Hann var svona týpa sem okkur vantaði,"
sagði Ólafur um Petar Rnkovic.
,,Ég er búinn að vita af honum síðan 2007, hann kom meðal annars hérna á haustmánuðum þá. Þá tókust ekki samningar og ég held ég sé búinn að reyna að fá hann tvisvar síðan en allt er þegar þrennt er. Hann eldist með hverju árinu en rauðvínið batnar líka margt við að eldast. Hann kemur með reynslu og hluti inn sem við höfðum ekki fyrir."
Hollendingurinn Rene Troost kom svo til Breiðabliks fyrir viku og félagið tilkynnti í gær um að hann hafi samið.
,,Hann er búinn að leika í næst efstu deild í Hollandi og er með sína fótboltamenntun þaðan. Týpískur hollenskur varnarmaður, góður einn á einn, öruggur á boltann, sterkur í loftinu og hávaxinn. Ég bind vonir um að hann hjálpi okkur í varnarleiknum eins og hinn ætti að gera í sóknarleiknum."
Nánar er rætt við Ólaf í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir























