Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
   sun 13. maí 2012 10:55
Magnús Þór Jónsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Sumarið er tíminn
Vangaveltur áhorfanda
Magnús Þór Jónsson
Fullt af áhorfendum - einhverjir spekingar?
Fullt af áhorfendum - einhverjir spekingar?
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Ætli þessir spili leikina í FM til að undirbúa sig?
Ætli þessir spili leikina í FM til að undirbúa sig?
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Í gær byrjaði boltinn að rúlla í 1.deildinni sem er aðaldeildin í mínum heimkynnum á Snæfellsnesi. Víkingarnir tóku á móti Fjölni og niðurstaðan var sanngjarnt jafntefli í leik sem bæði lið gátu þó kvartað undan að hafa ekki unnið.

Eftir leikinn í gær var staldrað við og auðvitað rætt um fótbolta og fyrstu umferðina. Alls konar viðhorf og ólíkar meiningar á hvað væru óvænt úrslit og hvað ekki, svona eins og gengur og gerist. Spjallið var langt og úr ýmsum áttum, enda ekki bara fulltrúar liðanna tveggja á staðnum.

Þegar leið inn í spjallið fór ég að hugsa mig aðeins um. Velti fyrir mér hvort að þessi hópur væri langt frá „réttri“ umræðu um fótbolta eða hvort að hugsanlegt sé að umræða um fótbolta í ólíkum fjölmiðlum sé kannski farin að færa sig í átt frá kjarnanum og í átt til fyrirsagnaleitar, með það að markmiði að beina sviðsljósi að öllum mögulegum og ómögulegum mistökum í neikvæðum tóni.

Þessa tilfinningu fékk ég þegar ég fattaði það eftir drjúga stund að umræðan öll fór fram um styrkleika leikmannahópa og liða. Ekki bara vegna áhugaverðra úrslita í 1.deildinni þar sem lið sem spáð hafa verið litlu gengi unnu eftirtektarverða sigra heldur líka þegar staðan í efstu deildinni var skoðuð. Kannski ekki síst þar sem fáum fannst ástæða til að ræða um leikkerfi eða þjálfara, sennilega vegna þess að við höfum ekki náð að horfa á öll liðin, eða hvað?

Er umræða um fótbolta farin að markast af gríðarlegu áhorfi á fótbolta í sjónvarpi? Maður getur horft á fótbolta í tugi klukkustunda á viku þar sem sjálfskipaðir spekingar fara yfir það sem fyrir augu ber. Fer svo á völlinn og er minnugur þess sem talað var um í greiningarþáttum þar sem maður horfir á 20 mínútur af fótbolta en hlustar á spjall í 40 mínútur í klukkutíma spjalli. Maður heyrir frasana og yfirfærir þá á leikmennina sem maður sér. Ekki bara í Ólafsvík, heldur hugsanlega líka í Hveragerði, Kópavogi og Vogunum.

En það er ekki það eina. Margir eyða líka klukkustundum í tölvuleikjum sem miðast að því að stjórna liðum í ólíkum deildum. Leikir sem byggjast 95% á að finna upp taktík sem virkar, eða að læra á stýripinna og hæfni leikmanna út frá því.

Með það er lagt af stað á völlinn. Minnugur síðasta Meistaradeildarþáttar, samantektar úr enska boltanum og nýbúinn að vinna Íslandsmeistaratitilinn í FM með Víking Ólafsvík eða vinna CL með Fulham í FIFA 12. Þegar illa fer að ganga hjá liðinu manns eftir 10 mínútur þá verður lítið úr stuðningi við liðið. Maður hallar sér að næsta sessunauti og fer að finna að. Oftast taktíkinni, en líka „metnaðarleysi“ eða „andleysi“ þessara leikmanna sem inni á vellinum eru. Þegar flautað er til leikhlés þá heyrast frasarnir „ja það þarf nú að láta menn heyra það núna“. Þetta er að verða algengara form en áður, en þó er frábært að heyra af og sjá í sjónvarpi hópa aðdáenda sem koma á völlinn til að syngja og styðja sitt lið. Horfði mikið á Keflavík á sínum tíma þegar Puma-sveitin var í sínu besta formi, það var ekki síðri skemmtun að hlusta á þá en horfa á leikina stundum.

Fótbolti er einfaldur leikur, þar sem 22 íþróttamenn berjast í 90 mínútur um yfirráð á u.þ.b. 7000 fermetra svæði og reyna að skora mörk. Upphafstaktík og niðurröðun á leikvöllinn er einn hluti leiksins, en eins og í öllum íþróttum vinnur yfirleitt það lið sem leggur mest á sig í vörn og sókn, fylgt ágætri heppni á stundum. Einhvern tíma las ég komment sem afreksmaður í fótbolta sló fram þegar hann var spurður að því hvaða formúla væri fyrir því að verða meistari í heimalandinu og hann svaraði:

„Til að verða meistari þarf lið að leika glimrandi vel í 75% leikjanna sinna og leggja sig það fram í hinum 25% að út úr þeim komi einhver stig“.

Þetta held ég að sé líkleg tölfræði, en vandinn er kannski sá að núna virðist krafan vera orðin sú að lið leiki glimrandi vel í 100% leikja sinna, allt frá því að mót er flautað á og þar til það er flautað af. Sem er fullkomlega óraunhæft og hefur aldrei tekist. Bara aldrei. Nema kannski í FIFA 12 þar sem maður restartar þegar maður tapar eða í FM þar sem maður notar bara „save-in“ til að komast í gegnum tímabilið.

Og strax er þessa viðhorfs farið að gæta í umfjöllun um íslenska fótboltann. Farið er að tala um að lið „séu að valda vonbrigðum“ , þau eru „andlaus“ og „sakna“ leikmanna. Allir sem fara í viðtal eru spurðir um útkomu leiks síns í samhengi við „spá spekinga“.

Því miður oftast sömu viðtölin, eða allavega sömu spurningarnar, leik eftir leik og ár eftir ár.

Byggð á því að reyna að velta mönnum upp úr því hvað „klikkaði“. Gefa sér það að þjálfarar sem ná að snúa leikjum hafi „lesið mönnum pistilinn“ á einhverjum tímapunkti eða að taktík sé að klikka. Mikil áhersla í viðtölum og greiningarþáttum fer í það að reyna að finna út hvað klikkaði hjá þeim sem tapaði og þá oft farið í að velta því yfir á þjálfarann, en stundum minna verið að skoða hvað skilaði sigri og góðri frammistöðu.

Sjaldan, jafnvel aldrei, reiknað með því að um þessi áðurnefndu 25% hafi verið að ræða, þar sem lið einfaldlega náði sér ekki á strik þó alla langaði til þess, leikmenn og þjálfara.

Svo þegar ég settist niður í dag til að velta þessu fyrir mér þá er ég bara glaður með umræðuna sem fram fór í kaffinu eftir leik hjá henni Tótu í Ólafsvík. Þar glöddust menn fyrir hönd þeirra sem voru að fara vel af stað í gær en ákveðnir í að það stig sem tekið var í gær myndi bara blása mönnum byr í brjóst, voru á jákvæðum nótum og fóru þannig hver í sína áttina.

Kannski hefði einhver greiningaraðilinn viljað velta fyrir sér hvers vegna Fjölnismenn byrjuðu svo veikt og voru daprir í fyrri hálfleik og aðrir hvers vegna Víkingur dalaði í seinni en ég held bara svei mér þá að þeir sem voru í umræðunum í gær hafi gert sér grein fyrir því að í þessari íþrótt er gangurinn þessi, þú vinnur suma og tapar sumum með eitt og eitt jafntefli á milli.

Þetta eru engin geimvísindi og kannski kominn tími á að velta því fyrir sér að ef að við viljum fá meiri stemmingu og verða glaðari í kringum boltann þá ætti fókusinn að liggja í því að spyrja víðar um þá þætti sem ganga vel hjá liðum og þjálfara og hrósa meira þeim sem sigra án þess að stíga á þá sem tapa.

Því sannleikurinn er jú sá að enginn „veit allt“ um fótbolta og er þá þess umkominn að segja hvað er rétt og hvað rangt. Fótboltaáhugi snýst um skoðanir og allir hafa rétt á sinni, þrátt fyrir allt sem maður kynnist í FIFA 12 og FM.

banner
banner
banner