Daði Rafnsson skrifar
Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að þjálfa fjöldann allan af frábæru ungu knattspyrnufólki hjá tveimur metnaðarfullum félögum Breiðabliki og Haukum undanfarin tíu ár. Mig langar til að deila reynslu minni af því hvernig viðhorf til kvennaknattspyrnu hefur tekið risastökk fram á við á þeim tíma og hvetja okkur öll til að gefa enn betur í.
Sá tími er liðinn þegar knattspyrna þótti hæfa kvenfólki illa og ungir og óreyndir þjálfarar voru látnir sjá um stelpurnar á meðan strákarnir fengu metnaðarfulla leiðbeinendur. Þau félög sem sinna kvenfólkinu sínu ekki sómasamlega eru vissulega ennþá til, en þeim fer sem betur fer fækkandi og eru hreinlega komin eftirá hinum. Íslensk kvennaknattspyrna er að springa út í yngri flokkunum. Stelpurnar eru komnar til að eigna sér sinn hluta knattspyrnukökunnar.
Í mínu félagi, Breiðabliki hefur verið mikill stöðugleiki á þjálfurum undanfarin ár og nú er svo komið að við höfum flestir þjálfað bæði stelpur og stráka í bland. Þar hefur orðið stórkostleg hugarfarsbreyting með stuðningi yfirþjálfara og unglingaráðs sem hefur skilað okkur mikilli aukningu í kvennaflokkum. Árið 2007 voru ellefu stúlkur á þriðja flokks aldri að æfa knattspyrnu með Breiðabliki. Í dag stillum við upp tveimur sterkum A liðum. Fyrir fimm árum voru rúmlega tuttugu stelpur í fimmta flokki, en í dag eru þær rúmlega áttatíu. Fjórði flokkur og sjötti flokkur eru með sextíu leikmenn hvor. Hvað gerðist?
Fyrsta hindrunin sem hugurinn þarf að komast yfir er sú að halda að það beri að nálgast kynin á ólíkan hátt. Svo er ekki. Ungt fólk nú til dags lætur ekki bjóða sér slíkan hugsunarhátt. Stelpurnar mæta jafn vel og strákarnir á æfingu og strákarnir gráta jafn mikið undan meiðslum og stelpurnar. Við höfum sett áhersluna á tækni og leikskilning og metnað fyrir íþróttinni. Við jukum magn „leiðinlegra“ æfinga (tækni, endurtekningu) og uppskárum aukinn fjölda og betri mætingu. Stelpurnar vilja ekkert fúsk, ekki frekar en strákarnir. Árangur kvennalandsliða Íslands hefur hjálpað til. Stelpurnar vilja vera eins og Sara Björk, Margrét Lára, Þóra og Fanndís. Þær vilja verða atvinnumenn og spila fyrir meistaraflokk, alveg eins og strákarnir. Við verðum að mæta kröfum þeirra. Í dag eru UEFA A menntaðir þjálfarar á 2., 3. 5. og 6. flokki kvenna í Breiðabliki. Stelpurnar fá jafna tíma á við strákana, inni í glæsilegri aðstöðu í Fífunni og Kórnum. Kannski eru þær ofdekraðar? Ég vil meina að þær eigi þetta skilið.
Ég spurði á þjálfarafundi í KSÍ í fyrra hvers vegna við þjálfuðum í 5. flokki kvenna og 5. flokki karla? Af hverju væri ekki bara 5. flokkur þar sem líkamlegi munurinn væri ekki það mikill og valið væri í lið eftir getu? Það eru ekki allir tilbúnir í þetta. Og sumir vilja meina að allra yngstu stelpurnar hræðist strákana. Ég held að það eigi að kenna þeim að spila saman frá unga aldri. Viðbrögðin voru dræm en við gerum þetta bara samt. Við sem þjálfum 4. flokk karla höfum að undanförnu sett stúlkur í okkar bestu byrjunarlið. Þjálfarar fimmta flokks karla hafa óskað eftir stúlkum úr fimmta flokki kvenna til að styrkja bestu lið sín. Þeir eru komnir á undan kollegum sínum sem telja þær ekki eiga erindi þangað. Við höfum tekið þátt með stúlknalið í strákamótum og stundum æft með strákum. Sumum finnst það skrýtið. Það á ekki að vera það. Fyrirliði U19 ára landsliðsins í knattspyrnu í fyrra Fjolla Shala spilaði með strákum í Leikni, sömuleiðis fyrirliði U17 ára landsliðsins Rakel Ýr Einarsdóttir. Ég fylgdist með þeim spila með strákum í gegnum tíðina. Þær styrktu liðin sín og gerðu þau betri.
Við styrkjum liðið okkar allra með jöfnum tækifærum karla og kvenna. Það er gamaldags að hugsa öðruvísi. Það má ekki kenna ungum börnum að þau eigi að halda sig innan gamalla kassa. Strákarnir, jafnaldrar stúlknanna styðja þær þegar þær keppa með þeim vegna þess að þjálfarar þeirra styðja þær. Fordæmi þeirra sem eru eldri skiptir máli. Foreldrarnir eru líka farnir að styðja þær svo um munar. Sumir jafn geðbilaðslega og hjá strákunum. Það segir manni örugglega að allt sé að mjakast í rétta átt. En lang flestir hvetja þær á jákvæðan og einlægan hátt, mæta á leiki, skutla á séræfingar, kaupa skó og bolta og minnast ekki orði á einhver ímynduð fótboltalæri.
Sumir foreldrar ganga skrefinu lengra. Þegar við Hallur Agnarsson gengum til liðs við stelpurnar í 6. flokki Breiðabliks árið 2009 urðum við hluti af miklu ævintýri sem hefur skilað sér í fjórföldum iðkendafjölda og gefið okkur ótalmargar nýjar og skemmtilegar vinkonur. Foreldrar þeirra hafa stutt rækilega við bakið á þeim. Þar á meðal er Ólafur Lúther Einarsson, sem tók þátt í því með okkur að drífa stelpurnar á völlinn til að hvetja og læra af meistaraflokki Breiðabliks. Ólafur bauðst til að fylgja hverri stúlku sem vildi á völlinn og það skilaði sér heldur betur. Þær mæta á alla leiki og styðja sitt lið. Í fyrrasumar kom Ólafur að máli við okkur og vildi stofna félag áhugafólks um kvennaknattspyrnu. Honum fannst synd hversu illa var mætt á völlinn og hversu lítil umfjöllun er um kvennaknattspyrnu í fjölmiðlum, þrátt fyrir frábæran árangur stúlknanna okkar á alþjóðavettvangi.
Við stofnuðum félagið í fyrra og í sumar ætlum við að láta í okkur heyra. Okkur barst góður liðsauki stofnenda sem eru tengdir öðrum félögum eins og FH, Fylki og Þrótti.
Við viljum hvetja alla sem segjast halda með þessum félögum og öðrum til að sýna sanna félagsást og láta þetta sumar vera sumarið þegar þið mætið ekki bara á leiki hjá strákunum ykkar heldur líka stelpunum ykkar. Félagið ykkar verður sterkara og betra fyrir vikið. Við sem stöndum að félaginu erum svo boðin og búin til skrafs og ráðagerða við hvern þann sem vill rífa upp stemninguna hjá sínu félagi.
Á föstudag hefst önnur umferð Pepsi deildar kvenna. FH tekur á móti Eyjastúlkum í Kaplakrika klukkan 18.00. Blikar bjóða Aftureldingu velkomna í Kópavoginn kl. 19.15 og á sama tíma spila Fylkir og Stjarnan í Árbænum og Valur og Selfoss á Hlíðarenda. Á laugardaginn eigast svo við KR og Þór/KA í Frostaskjóli. Boltinn rúllar einnig af stað í fyrstu deild kvenna um helgina þannig að það er nóg af tækifærum til að styðja við bakið á knattspyrnukonunum okkar næstu daga.
Sjáumst á vellinum!
Daði Rafnsson, þjálfari 4. kk. og 5. kvk. í Breiðabliki og einn stofnenda Félags Áhugafólks um Kvennaknattspyrnu
www.kvennafotbolti.is
Athugasemdir