Monningarnir að tala
Vorið 1995 fór ég í æfingaferð með félögum mínum í KS og var ferðinni heitið til stórborgarinnar Glasgow.
Fyrsta verkefni okkar var að kíkja yfir Clyde-ána og fara á fótboltaleik. Veðrið var frábært og þegar við nálguðumst rauðleitan heimavöll Glasgow Rangers varð manni ljóst hversu stórt bláa lið borgarinnar er.
Þúsundir manna á ferðinni, götusalar á hverju horni og stemmingin gríðarleg. Við strákarnir vorum hluti af 51 þúsund manns sem horfðum á Rangers bera sigurorð af Aberdeen þennan dag, 3-2 í mikilli stemmingu.
Það er því súrrealískt að fylgjast með umræðunni þessa dagana sem kemur frá Skotlandi. Þessi risi er einfaldlega látinn, gammarnir hringsóla yfir líkinu en verið er að reyna að byggja upp kofa á rústunum, en enginn veit hvernig það mun ganga.
Nýjasta er það að knattspyrnusambandið (SFA) hótar nú liðunum í 1.deildinni sinni með því að það verði einfaldlega ekki fótbolti í Skotlandi í framtíðinni ef að sú deild ákveður að neita liðinu sem verið er að reyna að byggja á rústunum um þátttöku. Kaupendur sjónvarpsréttar séu tilbúnir í eitt ár án Rangers í efstu deild, en ekki fleiri. Samningum verður einfaldlega sagt upp!!!
Ég öfunda ekki stjórnarmenn Partick, Cowdenbeath og Raith. Með því að segja já hafa þessi lið útilokað lið sín frá því að eiga séns á að vinna deildina því það mun lið með 50 þúsund aðdáendur á bakvið sig gera! Þeir munu á móti fá sneisafulla velli þegar lið þeirra tekur á móti Rangers og sjónvarpsgreiðslur vegna deildarinnar munu margfaldast.
Mér finnst vandi skoska boltans vera birtingarmynd á alheimsvanda íþróttarinnar. Fyrir um 20 árum varð fótbolti að iðnaði í stað íþróttagreinar og gróðavonir misvitra fjárfesta hafa frá þeim tíma velt félögum til og frá í ölduróti ótraustrar innkomu, hvort sem um er að ræða risalið eins og Rangers, Leeds, Portsmouth sem gengu of langt til að reyna að verða stórlið á alheimsmælikvarða eða öll litlu liðin sem lifa eingöngu á brauðmolunum sem falla af borði þeirra ríku. Þau skipta hundruðum og þúsundum á heimsvísu.
Á undanförnum árum hefur maður heyrt slíkar sögur úr íslenskri knattspyrnu. Bara alveg sömu vandamál en af minni stærðargráðu. Ótrúlegar sögur um föst laun knattspyrnumanna allt niður í 2.deild hafa flogið um og á hverju hausti koma slúðursögur um að þetta liðið og hitt skuldi leikmönnum sínum hundruðir þúsunda eða jafnvel meira.
Einstaklingur sem stendur nálægt íslenskum fótbolta skellti fram setningu nýlega í mín eyru sem mér fannst slæm. Hann sagði: "Það er orðin séríslensk íþrótt að bjóða knattspyrnumönnum samninga sem maður veit að ekki verður hægt að standa við til fulls".
Hvers vegna er það? Auðvitað er svarið bara eitt, það er erfitt, MJÖG ERFITT að fá peninga inn í íþróttastarf á Íslandi í dag. Sem betur fer eru nú öll lið búin að skilja á milli unglinga- og afreksstarfs þegar kemur að fjármagni svo að nú eru eingöngu tekjur af miðasölu og styrktarsamningar við afreksflokkana sem standa undir rekstri þeirra, sjónvarpstekjur að hluta.
Það er ekki einfalt að sinna stjórnarstörfum í svona umhverfi. Þar sem gerð er krafa á árangur allan ársins hring, menn tættir í sig við hvern tapleik og orðið "metnaður" og "metnaðarleysi" misnotað í umræðunni. Þá er tilhneigingin auðvitað að "gera eitthvað" og þannig, nákvæmlega þannig, verða vandamálin til.
Það er ömurlegt að fylgjast með Rangers-málinu í Skotlandi, ekki síður þar sem ég held að mitt lið í enska boltanum, Liverpool FC, hafi sloppið naumlega frá nákvæmlega sömu örlögum á sínum tíma. Ömurlegast er það fyrir aðdáendur Rangers sem skipta milljónum á heimsvísu, eiga þeir ekki lengur lið til að styðja?
Og það er ekki síður ömurlegt fyrir þá sem nú standa frammi fyrir þeirri ákvörðun að ákveða hvort þessir aðdáendur eignast lið til að styðja.
Vonandi, virkilega vonandi, mun mál Rangers verða til þess að knattspyrnan læri. Læri að það skiptir öllu máli að íþróttin verði í aðalhlutverki og peningamyllan fylgi henni. Því það að peningamyllan stjórni íþróttinni kallar á þá einföldu staðreynd að mylluhjólið snýst í hringi og þá fara allir einhvern tíma í vatnið, spurningin er bara hver lifir það af.
Skoska módelið getur því komið upp alls staðar, líka á okkar Ísa kalda landi. Vonandi munum við ekki þurfa að eignast okkar eigið Rangers-ævintýri til að átta okkur á því!