,,Þetta eru tveir leikir á móti liðum sem eiga að vera, ekki jafn sterk og við, svo við hljótum að koma hér til að sýna þjóðinni að við erum góðar í fóbolta," sagði Katrín Ómarsdóttir miðjumaður Íslands en liðið mætir Norður Írum hér heima á morgun og Króatíu á þriðjudag.
,,Við höfum ekki verið að sýna okkar bestu leiki í riðlinum og svo finnst mér við ekki hafa verið að spila frábærlega í síðustu leikjum. Núna erum við allar á miðju tímabili og eigum að vera í toppformi svo vonandi eigum við eftir að spila frábærlega."
Fyrri leik liðanna lauk með 0-1 sigri Íslands ytra í leik þar sem íslenska liðið var langt frá því að spila vel en Katrín kom inná sem varamaður og skoraði sigurmarkið.
,,Það gekk mjög illa, ég veit ekki hvað það var. Við viljum meina að það hafi verið því þetta var endirinn á tímabilinu og EM var búið, fólk var þreytt, og ég var ekki í byrjunarliði. Svona hlutir spila bara inní en sem betur fer náðum við að vinna."
,,Þetta gekk illa síðast en við tökum þetta bara á morgun. Sem betur fer náðum við að skora síðast því annars væri sénsinn eiginlega enginn. En sem betur fer skoruðum við, ég er viss um að ef ég hefði ekki sett hann þá hefði einhver annar sett hann."























