,,Ég er virkilega ánægður með að við skulum hafa landað þremur stigum hérna," sagði Ólafur H. Kristjánsson þjálfari Breiðabliks eftir 1-3 sigur á Selfossi á útvelli í dag.
,,Þetta var erfiður leikur eins og við áttum von á. Selfyssingarnir voru sterkir. Mér fannst þeir varnarlega mjög grimmir og í sókninni voru þeir mjög sterkir svo þetta var alls ekki auðvelt."
,,Ég er mjög ánægður með það að við skyldum hafa tekið þrjú stig út úr þessum leik og afleiðing þess er sú að við vermum efsta sætið núna. Það er bara að halda áfram að safna stigum og reyna að vera þarna þegar mótið er búið."
,,Ég held að fyrir mótið hafi menn átt von á að mörg lið kæmu til með að vera ofarlega. Hvaða lið það væru held ég að menn væru ekki alveg vissir um það. En liðin eru að kroppa hvert af öðru og þetta verður svona alveg þangað til í september."





















