
„Það líklega erfiðasta sem ég gat mögulega valið mér að giftast henni Dagnýju," sagði Ómar Páll Sigurbjartsson, eiginmaður Dagnýjar Brynjarsdóttur, léttur er hann ræddi við Fótbolta.net fyrir leik Íslands og Finnlands á Evrópumótinu.
Dagný og Ómar eiga tvö börn saman en Dagný er núna mætt á Evrópumótið í fjórða sinn fyrir Íslands hönd.
Dagný og Ómar eiga tvö börn saman en Dagný er núna mætt á Evrópumótið í fjórða sinn fyrir Íslands hönd.
„Við höfum gengið í gegnum ótrúleg ævintýri síðustu tíu árin, 15 árin raunverulegu. Núna eru þetta fjögur Evrópumót og Dagný hefur spilað í löndum hér og þar, síðast í Bretlandi. Í grunninn er þetta skemmtilegt," sagði Ómar.
„Ég er ótrúlega stoltur af henni Dagnýju. Ég er vissulega orðinn að ákveðnu leyti þreyttur á þessu ástandi með öll þessi börn, en að sama skapi er ég stoltur af henni og okkur sem fjölskyldu að hafa náð að koma okkur á þennan stað. Að Dagný sé komin aftur í íslenska landsliðið með rúmlega eins árs gamalt barn er ótrúlegt."
Hún eignaðist sitt annað barn í febrúar á síðasta ári og er núna mætt á EM.
„Það væri ótrúlega skemmtilegt að sjá samanburðinn á öðrum leikmönnum þessa móts, hvort við séum með marga leikmenn í sömu stöðu og Dagný Brynjarsdóttir. Þetta verkefni sem hún hefur gengið í gegnum á síðustu sjö árum, eftir að við eignuðumst fyrsta barnið okkar, er ótrúlegt," sagði Ómar og hrósaði fjölskyldunni allri.
Ómar segir að það séu bullandi hæfileikar í íslenska liðinu og núna sé kominn tími til að fara upp úr riðlinum. Við fórum síðast upp úr riðlinum 2013 og þá skoraði Dagný markið sem fleytti liðinu áfram.
Hér fyrir ofan má sjá allt viðtalið.
Athugasemdir