,,Mér fannst þetta öruggur sannfærandi sigur, gott að halda hreinu og fínt að skora þessi fjögur mörk," sagði Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfari Breiðabliks eftir 4-0 sigur liðsins á Santa Coloma frá Andorra í Evrópudeild UEFA í kvöld.
,,Næsta spurning er sennilega, 'hefðirðu ekki viljað skora fleiri', jú, en það er ekki hægt að fá allt og ég er sáttur við hvernig við tækluðum þennan leik."
,,Ég verð að viðurkenna að ég bjóst við þeim sterkari," sagði Ólafur en Breiðablik skoraði þrjú mörk á fimm mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleikinn.
,,Þeir höfðu engu að tapa eftir það og þá færðu þeir sig framar. Þá hefði ég viljað að við værum grimmari að ráðast á þá. En það var auðveldara en ég átti von á að fara í gegnum þá. Það helgast sjálfsagt af því að það er langt síðan þeir spiluðu leik."
,,En strákarnir spiluðu þetta vel, að halda hreinu og skora fjögur mörk, þrjú á kafla sem eru fimm mínútur. Það var jákvætt og það sem við lögðum upp með, halda hreinu og skora eins mikið og við gætum."
Eftir fjórða markið datt botninn úr þessu hjá Breiðablik en er nokkuð hægt að kvarta yfir því enda leikurinn búinn?
,,Jú, eru íslensk félög að fara að kvarta yfir því að vinna 4-0 í Evrópukeppni. Það er að klofa helvíti langt, mér fannst menn passa sig að fara ekki í návígi sem gætu kostað meiðsli og annað því þeir voru orðnir svolítið brutal í restina enda pirraðir."
Liðin mætast að nýju ytra næstkomandi fimmtudagskvöld. Hvað ætlar Ólafur að gera þá?
,,Allir ellefu sem byrja inná fá ekki að hvíla, við förum með sterkt lið og tökum verkefnið alvarlega."
Athugasemdir






















