„Þetta er klaufalegt mark sem við fáum okkur. Það er eins og það er, við verðum að læra af þessu," sagði landsliðsmiðvörðurinn Kári Árnason eftir tap Víkings gegn KR í Meistaraleik KSÍ í kvöld.
Lestu um leikinn: KR 1 - 0 Víkingur R.
Kennie Knak Chopart skoraði eina mark leiksins eftir um hálftíma leik. „Mér fannst við ekki nógu góðir í fyrri hálfleik, en það lagaðist mikið í seinni hálfleik og við áttum þann hálfleik. Við eigum ekki að gefa þeim færi á þessu marki, svo einfalt er það."
Undir lok fyrri hálfleiks átti Stefán Árni Geirsson, ungur leikmaður KR, tæklingu á Kára, sem virtist sparka til baka í Stefán eftir að hafa lent í jörðinni. KR-ingar vildu sjá rautt spjald á Kára fyrir það.
„Hann kemur sekúndu of seint í tæklinguna. Þetta var glórulaus tækling," sagði Kári. „KR-ingar reyna að varpa sviðsljósinu yfir á mig þó að ég hafi lent í tæklingunni."
Kári segist ekki hafa sparkað í Stefán. „Ég flýg á hausinn og er að reyna að standa upp. Ég fer ekkert í hann."
Athugasemdir






















