Hafsteinn Rúnar Helgason og samherjar hans í BÍ/Bolungarvík urðu að sætta sig við 3-1 tap gegn Haukum í Hafnarfirði í dag. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom slæmur leikkafli Vestfirðinga og þrjú mörk Hauka á skömmum tíma fór með leikinn. BÍ/Bolungarvík sitja því í fallsæti með þrjú stig eftir fjóra leiki.
,,Við misstum einbeitinguna eftir góðan fyrri hálfleik. Við ætluðum að reyna halda okkur lengur á núllinu og sjá hvert það myndi fleyta okkur en upphafið á seinni hálfleiknum fór alveg með okkar leikskipulag,” sagði Hafsteinn Rúnar en hvað gerðist á þessum slæma leikkafla?
,,Við vorum of langt frá okkar mönnum og það var eins og menn væru ekki vaknaðir í seinni hálfleik og Haukarnir refsuðu okkur. Þeir eru með fínt lið og við vorum á rassgatinu í byrjun seinni hálfleiks og því fór sem fór."
,,Það er oft þannig hjá okkur, við berjum í okkur baráttu í hálfleik en síðan förum við út og erum alveg eins og kerlingar og það hefur svolítið verið okkur að falli og það var svoleiðis í dag. Þetta var alveg ömurlegt,” sagði Hafsteinn.
Viðtalið má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir























