
Jörundur Áki Sveinsson, þjálfari Fylkis, var ánægður með 4-0 sigur síns liðs gegn Þrótti í Pepsi-deild kvenna í kvöld. Hann var þó ekkert upp með sér yfir spilamennskunni.
„Mér fannst við vera kannski aðeins frá okkar besta. Við höfum oft spilað betur en 4-0 sigur er bara mjög kærkomið. Mér fannst þetta þannig séð ekki vera spes leikur, en við skoruðum fjögur mörk og ég var ánægður með það," sagði Jörundur við Fótbolta.net.
Þróttarar vildu fá víti í byrjun seinni hálfleiks þegar boltinn fór í höndina á varnarmanni Fylkis í teignum. Ekkert var dæmt.
„Það var alveg pottþétt víti. En þær fengu ekki víti og það er því miður ekkert við því að gera."
Fylkisliðið er á góðu skriði eftir dræma uppskeru í upphafi móts að frátöldum sigri í 1. umferð gegn Selfossi.
„Ég er búinn að vera mjög ánægður með liðið frá því um miðjan júní og mér finnst við vera á réttri leið. Við erum komin með 13 stig og vildum auðvitað vera með fleiri, en við erum aðeins búin að slíta okkur frá neðri hlutanum og það er bara jákvætt."
Viðtalið má sjá í heild hér að ofan.
Athugasemdir