„Mjög svekkjandi. Við vissum að með sigri væri úrslitaleikur við Dani og við náðum ekki að klára það sem er rosalega svekkjandi." Segir Logi Hrafn Róbertsson eftir tap U21 landsliðsins gegn Lítháen
Lestu um leikinn: Ísland U21 0 - 2 Litáen U21
Ísland náði sér aldrei á strik í dag og margt hefði betur mátt fara.
„Það vantaði gæði í fyrirgjafir og slútt. Við gerum mistök og það er alltaf refsað fyrir það í landsliðsbolta."
Litháen var stigalaust fyrir leikinn og Logi var spurður hvort það hefði vantað upp á hugarfar leikmanna.
„Við vorum held ég ekki með vanmat. Við vissum að þetta væri erfiður leikur. Þetta var bara ekki okkar dagur og boltinn vildi bara ekki inn."
EM draumurinn er úti eftir undankeppni sem einkenndist af háum hæðum og lágum lægðum.
„Við spiluðum marga góða leiki. Heilt yfir er ég nokkuð sáttur, þessi leikur og leikurinn gegn Wales fóru hinsvegar með þetta."
Logi er einn af mörgum leikmönnum liðsins sem er gjaldgengur í næstu undankeppni.
„Það er mjög spennandi. Það er alltaf gaman að spila með landsliðinu og fá annan séns að komast inn á lokamótið."
Athugasemdir