Óskaði þess að KR-ingar hefðu verið búnir að selja Þorstein
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings, var að vonum svekktur eftir 3-0 tap sinna manna gegn KR í Pepsi-deildinni í kvöld.
KR-ingar skoruðu öll sín mörk í fyrri hálfleik og var leikurinn því í raun búinn fyrir hlé. Óli var þó léttur eftir leikinn, en aðspurður hvað menn segðu eftir svona leik svaraði hann:
KR-ingar skoruðu öll sín mörk í fyrri hálfleik og var leikurinn því í raun búinn fyrir hlé. Óli var þó léttur eftir leikinn, en aðspurður hvað menn segðu eftir svona leik svaraði hann:
Lestu um leikinn: Víkingur R. 0 - 3 KR
„Það er nú það maður, það fer eftir því við hvern þú talar. Ég segi lítið, þetta var svekkjandi. En KR-ingar verðskulduðu þennan sigur, það er nú ekkert flóknara en það. Þeir voru sterkari og ferskari en við og við gefum þeim rosalega auðveld mörk þarna, fyrstu tvö mörkin, og Thomas er klaufi í þriðja markinu."
„Menn komu sér í raun aldrei upp á tærnar í þessum leik, ég held að við höfum bara verið svolítið andlega gjaldþrota þarna. Það vantaði að menn tækju sjálfa sig í hnakkann og kæmu sér upp á tærnar. Menn voru þreyttir eftir Evrópuleikinn og hann sat í þeim, en við áttum að gera betur."
Hefðu mátt vera búnir að selja Þorstein
Þorsteinn Már Ragnarsson átti flottan leik fyrir KR og segir Ólafur að það hafi ekki komið sér á óvart að KR-ingar hafi sett hann í byrjunarliðið.
„Neinei, þeir hafa úr svo miklu að velja að það er alltaf erfitt að átta sig á því með hverja þeir byrja í þessum leik. En það er synd að þeir skyldu ekki vera búnir að selja hann bara!" sagði Ólafur.
Aðspurður út í meiðslin hjá Alan Lowing var stutt í grínið hjá Óla.
„Hann tognaði í nára. Kærastan hans er nýfarin, þetta kom strax upp úr því!" sagði hann og hló. Ólafur óttast ekki um stöðu sína.
„Ég óttast ekkert að vera áfram með liðið! Þú meinar óttast ég að vera ekki áfram með liðið? Nei ég óttast það ekki neitt, en það er bara þannig að það er stjórn í félaginu og þeir stjórna félaginu vonandi. Þeir taka þá ákvörðun um það og þá gerist það ef það gerist."
Athugasemdir