„Þetta er auðvitað svolítið svekkjandi. Við ætluðum að taka þennan leik og treysta á að eitthvað af hinum liðunum myndi taka stig af þeim á meðan við myndum klára rest en það gekk upp í dag," sagði Vilhjálmur Kári Haraldsson, þjálfari Breiðabliks, eftir tap gegn Val í Pepsi Max-deild kvenna í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 0 - 1 Valur
Þrír leikir eru eftir í deildinni og Valur er með sjö stiga forskot. Er svekkjandi að þær séu að fara langt með að klára Íslandsmeistaratitilinn hér á Kópavogsvelli?
„Ég veit það ekki. Ég held að við höfum eiginlega frekar klúðrað þessu dæmi í leikjum áður á tímabilinu. Það var kannski ekki hægt að ætlast til þess að við myndum vinna báða leikina gegn Val fyrir fram, maður hefði kannski haldið að við myndum vinna annan leikinn og tapa hinum. Við kannski töpum þessu með því að tapa öðrum leikjum á meðan þær halda betri stöðugleika heldur en við höfum verið að gera."
„Þetta er auðvitað ekki búið, það er ennþá barátta um annað sætið og allt þetta og gríðarlega mikilvægt að klára mótið." Stjarnan er ellefu stigum á eftir Breiðabliki og á tvo leiki til góða.
Breiðablik var búið að vinna hina tvo leiki liðanna í sumar. Var Blikaliðið slakara í dag en í þeim leikjum eða Valskonurnar betri?
„Mér fannst flæðið hjá okkur ekki nógu gott. Auðvitað finnur maður fyrir því að þær voru þéttar og þær voru hungraðar í að klára dæmið. Þær gátu að mörgu leyti sætt sig við eitt stig en við þurftum að sækja þrjú stig. Af því að það gekk ekki upp hjá okkur þá eflast þær og ná að þétta sig vel þannig að það var erfitt að opna þær. Við áttum alveg okkar sénsa en það bara gekk ekki upp," sagði Villi.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum að ofan.
Athugasemdir






















