
„Maður hefur eitthvað að óttast í öllum leikjum en meðan við spilum okkar leik og gerum það sem við eigum að gera eigum við að taka þrjú stig," sagði Ari Freyr Skúlason landsliðsmaður Íslands við Fótbolta.net í kvöld en liðið er í undirbúningi fyrir leik gegn Andorra í undankeppni EM 2020 á föstudaginn.
Liðið er nú í undirbúningi í Peralada í Katalóníu á Spáni en leikurinn fer svo fram á gervigrasi í Andorra.
„Ég veit ekki hvernig völlurinn lítur út en ég spilaði á gervigrasi sjálfur í sex ár. Boltinn fer hratt en ég veit ekki hvernig þetta verður."
Ari hefur mest spilað sem vinstri bakvörður með landsliðinu þó hann hafi kíkt á kantinn og jafnvel í hægri bakvörðinn. Sigurbjörn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari Vals var sérfræðingur í útvarpsþættinum Fótbolta.net á laugardaginn þar sem hann sagðist vilja sjá Ara á kantinum í leiknum á föstudaginn.
„Ég hef spilað hinar og þessar stöður og það skiptir ekki máli hvar ég verð settur. Það er bara undir þjálfaranum komið hvort hann vill nota mig eða ekki," svaraði diplómatískur Ari.
Nánar er rætt við hann í sjónvarpinu að ofan.
Athugasemdir