Man City horfir til Gyökeres - Xavi vill taka Raphinha með sér - Man Utd gæti lánað Antony
banner
   fös 25. október 2024 01:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Draumamark Selmu dugði ekki til í svekkjandi tapi gegn besta landsliði heims
Icelandair
Marki Selmu fagnað.
Marki Selmu fagnað.
Mynd: Getty Images
Bandaríkin 3 - 1 Ísland
1-0 Alyssa Thompson ('39)
1-1 Selma Sól Magnúsdóttir ('56)
2-1 Jaydyn Shaw ('85)
3-1 Sophia Smith ('89)

Lestu um leikinn: Bandaríkin 3 -  1 Ísland

Ísland mætti besta landsliði heims, Bandaríkjunum, í Texas í kvöld. Um fyrri vináttuleik liðanna var að ræða og leiddu heimakonur í hálfleik. Bandaríska liðið var mun meira með boltann í leiknum en íslenska liðið fékk góð færi, ekki síðri en það bandaríska.

Seinni hálfleikur var lengstum virkilega góður hjá íslenska liðinu, liðið var mjög þétt og í byrjun hálfleiks var íslenska liðið að skapa meira en lið heimakvenna.

Selma Sól Magnúsdóttir jafnaði nokkuð sanngjarnt metin á 56. mínútu með algjörlega frábæru marki. Hún fékk boltann frá Guðnýju Árnadóttur fyrir utan teig, lék á einn varnarmann og þrumaði boltanum í fjærhornið. Draumamark Selmu sem bar fyrirliðabandið í seinni hálfleik eftir að Glódís Perla Viggósdóttir fór af velli.

Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson hreyfði vel við liðinu og léku einungis fimm leikmenn allar 90 mínúturnar. Ásdís Karen Halldórsdóttir var ein af þeim sem komu inn á í leiknum og var hún að leika sinn fyrsta A-landsleik. Hlutirnir litu vel út hjá íslenska liðinu um miðbik seinni hálfleiks, bandaríska liðið í miklu brasi að byggja upp sóknir.

En mörkin áttu eftir að koma hjá liðinu sem situr í efsta sæti heimslistans. Það var alls ekki í takti við leikinn þegar bandaríska liðið komst yfir á 85. mínútu. Varamaðurinn Jaydyn Shaw náði full auðveldlega að komast að markteig íslenska liðsins og náði að pota boltanum milli fóta Telmu Ívarsdóttur sem stóð í markinu. Mjög svo svekkjandi staða komin upp, íslenska liðið lent undir eftir að hafa átt góðar 40 mínútur.

Skömmu síðar innsiglaði svo Sophia Smith sigurinn með frábæru skoti og 3-1 urðu lokatölur. Seinni leikur liðanna fer fram i Tennessey á sunnudagskvöld.


Athugasemdir