Bjarni Jóhannsson var hógvær eftir útisigur Njarðvíkinga gegn Ægi í 2. deildinni í kvöld. Njarðvík var þegar búið að tryggja sig upp um deild en Ægir þurfti sigur til að halda raunhæfum möguleikum um annað sætið á lífi.
Lestu um leikinn: Ægir 1 - 3 Njarðvík
Heimamenn í Þorlákshöfn voru óheppnir að skora einungis eitt mark í tapinu og átti Robert Blakala stórleik á milli stanga gestanna úr Reykjanesbæ.
„Þetta Ægislið er hrikalega gott fótboltalið og það lið sem hefur kannski komið mest á óvart í sumar. Þeir sýndu frábæra frammistöðu í bikar sem er kannski að bitna á þeim núna en þetta var hörkuleikur og ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta detta með okkur í kvöld," sagði Bjarni eftir sigurinn og talaði um að vera sáttur með að sleppa við toppbaráttuna „í einhverjum kartöflugörðum" á lokaspretti tímabilsins.
„Það hefði verið þægilegt að koma hingað og 'chilla' bara en næsta verkefni er að ná í bikarinn og vinna þessa deild."
Bjarni veit ekki hvað hann gerir á næstu leiktíð. Hann verður samningslaus í haust og ætlar að skoða stöðuna þegar nær dregur.
„Við erum ekki byrjaðir að pæla í því. Við erum að einbeita okkur að því að klára þetta mót og svo kíkjum við á það. Það er heil meðganga í Lengjuna. Við erum bara rétt að átta okkur á því að vera komnir upp."