
Haraldur Freyr Guðmundsson þjálfari Keflavíkur var að vonum ánægður í leikslok þegar Keflavík vann 4-0 sigur á HK á Laugardalsvelli í dag og tryggði sér það með sæti í Bestu deildinni á næsta tímabili.
Lestu um leikinn: Keflavík 4 - 0 HK
„Við erum alveg í skýjunum með þennan sigur. Frábær sigur hjá okkur og það verður geggjað að fagna þessu í kvöld. Strákarnir eiga það skilið.“
HK vann sannfærandi sigur á Keflavík í báðum deildarleikjum á milli liðanna í sumar. Keflvíkingar höfðu þau úrslit alls ekki í huga þegar þeir mættu til leiks og keyrðu strax á lið HK.
„Þessir leikir í deildinni, við vorum ekkert að spá í þeim. Þeir voru kannski eitthvað bensín á eldinn. En komandi úr þessu einvígi gegn Njarðvík þá fann ég bara að orkan í okkur var frábær og spennustigið rétt Í fyrri hálfleik í dag byrjum við á að setja tvö mörk á þá snemma og fáum svo eitt rétt fyrir hálfleik. Við töluðum svo um það í hálfleik að halda bara áfram og keyra á þá. Þeir þyrftu að koma framar á völlinn og þetta myndi opnast og við fá færin til þess að komast í 4-0.“
Það má segja að Keflavík hafi skriðið inn í þetta umspil í lokaumferðinni en liðið gat ekki eingöngu treyst á sjálft sig heldur þurfu úrslit að falla með þeim til þess að af því yrði. Keflvíkingar sjálfir hafa sagt að tímabilið í deild hafi verið vonbrigði en umspilið og sigur í því má segja að hafi bjargað tímabili þeirra.
„Ef þú horfir bara á deildarkeppnina þá var hún vonbrigði. Við ætluðum okkur að reyna að vinna deildina eins og fleiri lið. Það fjaraði fljótlega út og við töluðum um og höfðum trú á að komast í þetta umspil og þá væri ennþá séns og það hafðist.“
Sagði Haraldur en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir