,,Ég er rosalega sáttur, það er ekki hægt annað. Frábært að hafa byrjað svona og taka þrjú stig, það gerist ekki flottara," sagði Hlynur Svan Eiríksson nýráðinn þjálfari kvennaliðs Þór/KA sem vann 3-1 sigur á Fylki sólarhring eftir að hann tók við liðinu í kvöld. En hvað skilaði sigrinum.
,,Barátta og vilji, við vildum meira en þær. Mér fannst það gegnumgangandi allan leikinn. Það er fyrst og fremst það. Við getum bætt okkar leik, það er alveg klárt mál."
,,Ég er svo algjörlega nýr í þessu. Viðar var sjálfsagt búinn að leggja línur og setja markmið. Ég á eftir að heyra í stelpunum með það. Ég þykist vita að við ætlum að vera með efstu liðum, það er alveg klárt mál. Ég myndi halda að það væri markmið að vera í toppbaráttu."
Hlynur er þriðji þjálfarinn sem stýrir liðinu á innan við ári en er hann kominn til að vera?
,,Ég var að stýra liðinu í þessum leik en þetta er heitt sæti hérna."





















