,,Ég hugsa að þetta hafi verið nokkuð sannfærandi. Við vorum vel klárir frá fyrstu mínútu og héldum aga og skipulagi og háu tempói í okkar leik allan tímann. Það er það sem ég tek umfram allt út úr þessu ásamt stigunum," sagði Páll Gíslason þjálfari Þórs eftir sannfærandi sigur hans manna gegn Víkingi 6-1 í dag á Þórsvellinum.
Þórsarar mættu til leiks án Atla Sigurjónssonar sem hefur verið einn allra besti leikmaður liðsins í sumar en í hans stað kom nýliðinn Clark Keltie beint inn í byrjunarliðið í sínum fyrsta leik með Þór.
,,Við erum allavega þekktir fyrir það innan okkar herbúða hérna að við stöndum saman og látum það ekkert trufla okkur þótt að þeir sem hafi spilað meira en aðrir detti út, við viljum hátt tempó og við viljum læti."
Þórsarar hafa náð sér í tvo leikmenn nýlega og þeir skoruðu báðir á lokaspretti leiksins í dag, ertu þá svona agalega góður í þessum leikmannaviðskiptum?
,,Nei, ég ætla ekki að hreykja mér af einu eða neinu. Þetta kom upp og ég þurfti ekki mikinn umhugsunarfrest í hvorugt skiptið. Ég sá ,,CK" hérna í tólf mínútur á æfingu með öðrum flokki og þá var ég sannfærður, ég sá ég að þetta var eitthvað sem okkar lið þurfti á að halda til að bæta í. Með Ragnar, það geta öll liðin fengið Ragnar, hann kann að skora og það skiptir engu máli hvað klukkan er, hvaða dagur er eða hvað hann er gamall. Hann kann alltaf að skora og það er frábært, hann skoraði í dag og það er bara meiriháttar."
Nánar er rætt við Pál í sjónvarpinu hér að ofan
























