,,Þetta var frábær skemmtun og færi á báða bóga í 90 mínútur. Þú hefur bara misst af því," grínaðist Magnús Gylfason þjálfari Hauka eftir markalaust jafntefli gegn Fjölni í kvöld í leiðinlegum leik.
Lestu um leikinn: Fjölnir 0 - 0 Haukar
,,Nei nei, þetta var frekar daufur leikur. Við vorum líklegri í fyrri hálfleik fannst mér, smá líf í okkur þá að skapa okkur færi en vantaði bara að klára þau."
,,Seinni hálfleikur var alls ekki nógu góður, það vantaði allan kraft í þetta. Það var rosalegur hiti og stutt síðan við spiluðum síðasta leik. Við spiluðum náttúrulega á laugardaginn, hann var færður þessi leikur. Kannski ekki nægur kraftur í mönnum eftir svona stutt hlé."
Möguleikar Hauka á að enda í öðru sætinu minnka með hverri umferðinni og í raun eru þeir bara tölfræðilegir núna, ekkert bendir til þess að þeir nái Selfoss í 2. sætinu. En er þetta ekki endanlega búið spil núna?
,,Selfoss er ekki búið að spila, það gæti minnkað forystan. Þú ert í tómri vitleysu í reikningunum. Vissulega erum við búnir að tapa mörgum stigum en Selfoss þarf að vinna sína leiki svo þeir stingi okkur endanlega af. En við fengum eitt stig í dag, það má ekki gleyma því."
,,Ef Selfoss klárar þá myndi ég alveg taka undir með þér, þá er þetta orðið ansi erfitt að vinna. En meðan að stigin eru í boði eigum við þá ekki að reyna."
Næsti leikur Hauka er gegn Gróttu á heimavelli þeirra á Ásvöllum.
,,Það verður hörkuleikur á plastinu. Bæði plastlið, verður það ekki fjör bara, Siggi Helga mætir með sína plastmenn."