Gísli Gíslason formaður stjórnar KFÍA skrifar
,,Sá er kannski sýndarveruleikinn í tölvunni og þannig virðist umræðan um að fá nýjan erlendan landsliðsþjálfara. Raunveruleikinn er hins vegar annar og nauðsynlegt að íslensk knattspyrnufélög og KSÍ gæti að þeim fjárhagsramma sem litla Íslandi er markaður.''
Í fréttum er fjallað um fjárhagsstöðu knattspyrnufélaga og m.a. nefnt að erfitt efnahagsumhverfi sé þar myllusteinn um háls íþróttafélaga. Ekki skal gert lítið úr því enda hefur fjárhagsvandi heimsótt flest íþróttafélög í einni eða annarri mynd síðustu áratugi, þ.m.t. félög á Akranesi.
Ástæður fjárhagsvanda íþróttafélaga eru eflaust margþættar - en óhætt er að fullyrða að jafnan eru þær einföldu ástæður til staðar að eytt sé um efni fram og ekki gripið til nauðsynlegra ráðstafana í tíma þegar séð er að tekjur duga ekki fyrir rekstri. Þegar sagt er í fréttum að "öll" félög standi í sömu sporum spyr stuðningsfólk KFÍA eðlilega: Hver er staðan hjá okkur? Því er rétt að segja frá og rifja einnig upp hvernig brugðist hefur verið við breyttum aðstæðum.
Fyrst skal nefnt að KFIA skuldar engum neitt umfram venjulega útistandandi mánaðarlega reikninga og lausafjárstaðan er ágæt og í samræmi við það sem lagt var upp með í fjárhagsáætlun. Það telst eflaust góð staða knattspyrnufélags í dag miðað við fréttir. En hvað skilar þessari stöðu? Í fyrsta lagi er það endalaus leit að tekjum, smásmugulegt aðhald í rekstrargjöldum, gott yfirlit um stöðu bókhalds og samhent stjórn um að eyða ekki meiru en aflað er.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um að gaman væri að geta keypt leikmenn að vild, vinna bikara og baða sig í ljóma sigursælunnar. Sá er kannski sýndarveruleikinn í tölvunni og þannig virðist umræðan um að fá nýjan erlendan landsliðsþjálfara. Raunveruleikinn er hins vegar annar og nauðsynlegt að íslensk knattspyrnufélög og KSÍ gæti að þeim fjárhagsramma sem litla Íslandi er markaður. Samhliða því er rétt og hollt að leiða hugann að þeirri grundvallarforsendu íþróttastarfsemi að skapa ungu fólki holla og uppbyggjandi iðju - þó svo að keppt er til sigurs.
Á Skaganum hefur sem sagt tekist að halda sjó fjárhagsleg og byggja að stærstum hluta á leikmönnum sem aldir eru upp hjá félaginu. Þeirri stefnu verður áfram fylgt. Vissulega þarf að fylla í holur og styrkja það sem hægt er - en það er ekki framtíð í því að horfa á fótboltann á Skaga þannig að aðkeyptir leikmenn leiki í öllum eða flestum stöðum. Ef það væri gert myndu sömu fréttir berast af Skaganum og berast nú af vandræðum annarra.
Við hrun íslensks efnahags 2008 var gripið til ráðstafana hjá KFÍA. Félagið missti sinn stærsta stuðingsaðila og tekjur lækkuðu. Leikmannasamningar voru endurskoðaðir og kostnaður skorinn niður eins og kostur er. Vissulega kom það við leikmenn en allir sýndu þeir einstaka trúmennsku gagnvart félaginu og skildu mæta vel að fótboltinn á Skaganum snýst ekki um peninga heldur metnað og heiður.
Skaginn mun aldrei keppa við höfuðborgarfélögin um leikmenn á fjáhagslegum forsendum - en í atlæti, aðbúnaði og áhuga stöndum við hverjum sem er snúning. Þetta er gott að hafa í huga nú þegar horft er til Pepsídeildar. Strákarnir í meistaraflokki, þjálfari og hans aðstoðarlið eiga heiður skilinn fyrir liðið sumar - en verkefnið framundan mun byggja á meiri vinnu, meiri samheldni og meiri vilja. Þannig mun Skaginn sanna tilverurétt sinn í Pepsídeildinni og á þeim forsendum að fleira skapar hamingju í fótboltanum en peningar.
Sem betur fer hefur Skaginn átt því láni að fagna að öflug fyrirtæki hafa lagt sitt að mörkum til þess að unnt sé að halda uppi öflugu fótboltastarfi á Akranesi. Norðurál, Síminnn, HB Grandi hf., VÍS, verslunin Nína, OLÍS, Securstore, Íslandsbanki og Vífilfell svo dæmi séu nefnd hafa stutt dyggilega við bakið á félaginu og vonandi hefur knattspyrnufélagið einnig skilað þessum aðilum ávinningi.
Framundan er kunnugleg glíma við að fjármagna félagið og að sjálfsögðu verður áfram treyst á liðsinni þessara góðu fyrirtækja. Ekki síst verður áfram byggt á öflugu stuðningsfólki sem hefur eins og alltaf áður staðið sig með einstökum sóma í sumar.
Niðurstaðan er sú að fjárhagur KFÍA er í góðu jafnvægi, bakhjarlarnir eru velviljaðir, leikmenn viljugir að sanna fyrir stuðningsfólkinu að þeir hafi metnað til að leika í gulu treyjunni, starfsfólk félagsins einbeitt í að ná árangri og stjórnin ákveðin í því að halda útgjöldum innan þess sem aflað er. Svo gul, glöð og einföld er staðan.
Gísli Gíslason, formaður stjórnar KFÍA.